Um VFÍ

Verkfræðingafélag Íslands

Verkfræðingafélag Íslands var stofnað 1912 og er mikilvægur samstarfsvettvangur til þess að efla verkfræðilega og vísindalega þekkingu á Íslandi og vinna að hagsmuna- og kjaramálum verkfræðinga og tæknifræðinga með fjölbreyttu og öflugu starfi. Félagsmenn eiga ýmist aðild að Kjaradeild eða Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi. Skipurit félagsins má nálgast hér. Lesa meira

Merk tímamót - Markmið félagsins

Þann 1. júlí 2011 tók sameining Verkfræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga formlega gildi. Annar merkur áfangi varð um áramótin 2016-2017 þegar Verkfræðingafélag Íslands og Tæknifræðingafélag Íslands sameinuðust undir heiti þess fyrrnefnda.

Lesa meira

Starfsheitin eru gæðastimpill

Nám í verkfræði og tæknifræði er krefjandi undirbúningur fyrir ævistarf. VFÍ samþykkir menntun og réttindi verkfræðinga og tæknifræðinga og stendur vörð um þau. Samkvæmt lögum hafa þeir menn einir rétt til að kalla sig verkfræðing/tæknifræðing, sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra, enda hafi þeir lokið námi frá fullgildum verkfræði- eða tæknifræðiskóla. Menntamálanefnd VFÍ er umsagnaraðili um starfsheitisumsókn. Í samvinnu við Iðnaðarráðuneytið hefur VFÍ sett fram þær menntunarkröfur sem þarf til að öðlast starfsheitin verkfræðingur eða tæknifræðingur.

Við styrkjum stöðu fagsins og einstaklinga innan þess

Við styrkjum stöðu fagsins og einstaklinga innan þess með því að efla þekkingu og tryggja faglega umfjöllun. VFÍ er stofnaðili að Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) og tryggir framboð símenntunar með góðu samstarfi við EHÍ. Vaxandi samkeppni milli faghópa um forystu á sviði vísinda, stjórnunar, athafna og viðskipta undirstrikar nauðsyn þess að efla þekkingu og samstöðu verkfræðinga og tæknifræðinga.

Við aukum framtíðarmöguleika með góðri ímynd

Góð ímynd starfsstéttar er mikilvæg í samfélagi nútímans. Ímynd verkfræðinga og tæknifræðinga varðar hvern og einn og hún kemur ekki af sjálfu sér. Hana þarf að byggja upp markvisst og með samvirkum hætti. Ef við tökum ekki frumkvæðið, eigum við á hættu að orðstír verkfræðinga og tæknifræðinga verði mótaður af öðrum sem síður skyldi.