Fréttir

Ritröð VFÍ - ný bók - 19.12.2009

bok2Í desembermánuði kemur út sjötta bókin í ritröð VFÍ og nefnist hún: Verkin sýna merkin - Saga framkvæmda og verktakastarfsemi á Íslandi. Í bókinni er fjallað um þróun verklegra framkvæmda á Íslandi frá fyrstu öldum Íslands byggðar til dagsins í dag. Bókin er yfir 300 blaðsíður með fjölda mynda og öll prentuð í lit. Höfundur er Sveinn Þórðarson, en hann hefur ritað þrjár af fyrri bókum í ritröðinni. Formaður ritnefndar var Páll Sigurjónsson, verkfræðingur. Almennt verð: kr. 5.500.- verð til félagsmanna VFÍ: kr. 4.800.- ef keyptar eru fimm bækur eða fleiri: kr. 4.500.-

Lesa meira

Stök námskeið á meistarastigi - 27.11.2009

Endurmenntun HÍ í samstarfi við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði-, og tölvunarfræðideild HÍ, býður stök námskeið á meistarastigi. Námskeiðin henta vel þeim sem vilja safna einingum til meistaragráðu. Umsóknarfrestur er til 7. desember. Nánari upplýsingar.

Haraldur Ásgeirsson látinn - 17.11.2009

Haraldur Ásgeirsson, verkfræðingur og fyrrverandi forstjóri Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, andaðist á Landspítalanum 15. nóvember sl. Haraldur tók virkan þátt í störfum Verkfræðingafélags Íslands og Stéttarfélags verkfræðinga. Hann sat í stjórn VFÍ á árunum 1953-55 og var formaður SV 1957-58. Hann hlaut gullmerki VFÍ árið 1986 og var gerður að heiðursfélaga 1992. Haraldur var formaður undirbúningsnefndar og ritnefndar Verkfræðingatals á árunum 1993-96.

Útför Haraldar verður gerð frá Neskirkju nk. föstudag, 20. nóvember kl. 11.

Lesa meira

Ábyrgð byggingarstjóra - 30.10.2009

Magnús Baldursson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri FRV, var gestur á morgunfundi VFÍ. Hann ræddi ábyrgð byggingarstjóra í tilefni af dómi sem féll nýlega og vakið hefur nokkra athygli. Það var vel mætt á fundinn og umræður líflegar. Fyrrnefndur dómur er fróðleg lesning og Magnús benti fundarmönnum jafnframt á að kynna sér frumvarp um ný mannvirkjalög. Þar er ráðgert að auka verulega ábyrgð og kröfur til byggingarstjóra.

Norcem vill ráða vélaverkfræðing - 19.10.2009

Norcem óskar eftir að ráða reyndan vélaverkfræðing í vélaviðhaldsdeild sína í Kjøpsvik í Norður-Noregi. Norcem AS er eini sementsframleiðandi Noregs og hefur áralanga reynslu af framleiðslu og útflutningi sements. Norcem AS framleiðir allar gerðir sements til bygginga-, mannvirkja- og olíuiiðnaðar í Noregi. Hjá fyrirtækinu starfa um 500 starfsmenn og er fyrirtækið hluti af HeidelbergCement samsteypunni. Heidelberg Cement samsteypan er ein stærsta sementsframleiðsla í heiminum með yfir 60.000 starfsmenn í um 50 löndum. Nánari upplýsingar á vef Norcem og hjá Hagvangi.

Siðferðislegar skyldur verkfræðinga - 7.10.2009

Föstudaginn 9. október stendur Verkfræðingafélag Íslands fyrir málþingi um siðferðislegar skyldur verkfræðinga. Margir telja að siðfræði sé of lítill gaumur gefinn innan verkfræðinnar, bæði í námi og störfum verkfræðinga. Á undanförnum árum hefur verkfræðingastéttin orðið fyrir gagnrýni, sérstaklega þeir sem starfa í fjármála- og orkugeiranum. Verður án efa fróðlegt að heyra sjónarmið fulltrúa þeirra. Málþingið verður í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9, kl. 13-16. Dagskráin er hér.

Málþing um siðferðislegar skyldur verkfræðinga - 30.9.2009

Verkfræðingafélag Íslands stendur fyrir málþingi þann 9. október um siðferðislegar skyldur verkfræðinga. Verkfræðingar, innan félags og utan, eru eindregið hvattir til að mæta. Markmiðið er að vekja til umhugsunar og hvetja til umræðu um áhugavert málefni sem á brýnt erindi í dag.

Lesa meira

Húsfyllir á Samlokufundi - 25.9.2009

Samlokuf_24_09_09Það var húsfyllir á Samlokufundi í gær, fimmtudaginn 24. september. Gestur fundarins var Teitur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Framtíðarorku sem stóð fyrir ráðstefnunni Driving Sustainability í Reykjavík fyrir skömmu. Teitur fjallaði um framtíðarsýn um orkunotkun í samgöngum á Íslandi og fór yfir helstu niðurstöður ráðstefnunnar en þar komu m.a. fram sérfræðingar um orkulausnir í samgöngum víða að úr heiminum.

Heiti potturinn á föstudaginn - 23.9.2009

Föstudaginn 25. september verður opið hús kl. 8-9 hjá Verkfræðingafélagi Íslands. Þar gefst félagsmönnum tækifæri að hittast og ræða málin yfir kaffibolla og rúnstykki. Ekki er um formlega dagskrá að ræða en Kristinn Guðmundsson verkfræðingur hjá Samsýn fjallar um kortagerð og svar sitt við grein Kolbrúnar Halldórsdóttur í Morgunblaðinu 22. ágúst sl. Fyrirsögn greinarinnar var: Stjórnlaus vegagerð á hálendi Íslands en þar segir hún að í krafti lagabreytingar, þar sem kortaútgáfa var gefin frjáls, geti nú „sjálfskipaðir slóðagerðamenn“ farið sínu fram og merkt sína eigin slóða, hvar sem hjólför má finna.

Vinsamlega skráið ykkur fyrir kl. 14 þann 24. september með því að senda póst eða hringja í síma: 535 9300.

Skrifstofan lokuð eftir hádegi 18. september - 18.9.2009

Vinsamlega athugið að skrifstofa VFÍ, TFÍ og SV verður lokuð eftir hádegi í dag, föstudaginn 18. september vegna starfsmannaferðar.

Forstjóri flaggskipsins - 20.8.2009

Hörður Arnarson verkfræðingur hefur verið ráðinn forstjóri Landsvirkjunar. Í viðtali í Kastljósi þriðjudaginn 18. ágúst sl. sagði Hörður að ein ástæða þess að hann sóttist eftir starfinu væri sú að það væri flaggskip verkfræðimenntunar í landinu. Hörður er 46 ára gamall og lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands1986 og doktorsprófi frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn 1990. Hann starfaði hjá Marel frá 1985 og þar af sem forstjóri fyrirtækisins í tíu ár frá 1999 til 2009. Frá því í maí síðastliðnum hefur Hörður gegnt starfi forstjóra Sjóvár og leitt endurskipulagningu félagsins en gert er ráð fyrir að því verkefni ljúki fyrir áramót.

Starf í Svíþjóð - 12.8.2009

Sænskt bygginga-og verktakafyrirtæki leitar eftir byggingarverkfræðingi eða byggingartæknifræðingi sem hefur reynslu og þekkingu af verkefna- og byggingastjórnun (stærri verkefni, > 1500 milj. ISK). Óskað er eftir starfsmanni með að minnsta kosti átta ára starfsreynslu. Viðkomandi þarf að geta talað og skrifað sænsku. Nánari upplýsingar. Senda má fyrirspurnir til skrifstofu félagannaVinsamlega merkið fyrirspurnir í tölvupósti í efnislínu (subject): Starf í Svíþjóð.

Kjarakönnun SV 2009 - 3.7.2009

Kjarakönnun Stéttarfélags verkfræðinga 2009 er komin út og er birt á vef félagsins.

Húsin í bænum - ertu með hugmynd? - 16.6.2009

Menningarnótt í Reykjavík verður haldin laugardaginn 22. ágúst næstkomandi.  
Þema Menningarnætur að þessu sinni er „Húsin í bænum“. Þar sem þetta tengist sérsviði verkfræðinga og tæknifræðinga er kallað eftir hugmyndum þeirra.

Lesa meira

Málstofa NVF um brýr framtíðarinnar - 5.6.2009

Dagana 31. ágúst og 1.september verður málstofa í Gautaborg í Svíþjóð á vegum Norræna vegasambandsins (NVF) um brýr og brúarhönnuði framtíðarinnar. Nánari upplýsingar.

Fundir á sviði mannvirkjagerðar - 19.5.2009

Föstudaginn 22. maí verður fyrirlestur á vegum BIM Ísland. Yfirskrift hans er: Hvað getur BIM ? Fundurinn verður haldinn í VINDHEIMUM Höfðatorgi, 7. hæð, Borgartúni 12-14, kl. 15-17. Upplýsingar. Mánudaginn 8. júní verður opinn fundur um árangursvísa og árangursmat í  mannvirkjagerð. Fundurinn verður á Grand Hótel og hefst kl. 13:15. Upplýsingar.

Viðburðir á næstunni - 30.4.2009

Hér eru upplýsingar um viðburði sem félögin voru beðin um að koma á framfæri við félagsmenn sína. Vistvænar byggingar. - Steypuviðgerðir. - Revit BIM og M&E dagur. - Erlend útboð.

Brunavarnaþing 2009 - 15.4.2009

Brunavarnaþing 2009 verður haldið föstudaginn 17. apríl. Yfirskrift þingsins er: Virkjanir og stóriðja. Það verður haldið í bíósal Hótels Loftleiða og stendur frá kl. 8:30 – 12:00. Aðalfundur BTÍ verður haldinn í kjölfarið.

 Nánari upplýsingar.

Að móta byggð... með áherslu á lífsgæði - 14.4.2009

Verkfræðingafélag Íslands hefur tekið þátt í undirbúningi ráðstefnu Skipulagsstofnunar sem ber yfirskriftina: Að móta byggð... með áherslu á lífsgæði. Ráðstefnan verður fimmtudaginn 30. apríl. Nánari upplýsingar.

Aðalfundur VFÍ verður 25. mars 2009 - 23.3.2009

Aðalfundur Verkfræðingafélags Íslands verður haldinn miðvikudaginn 25. mars 2009 í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9. Fundur verður settur kl. 16 en þá mun Örn Steinar Sigurðsson, verkfræðingur hjá Verkís flytja erindið: Verkefni tæknimanna og verktaka undanfarin ár og horfur framundan. Kl. 17 hefjast formleg aðalfundarstörf.

Lesa meira

Þrír sæmdir heiðursmerki VFÍ - 9.2.2009

Á árshátíð Verkfræðingafélags Íslands, sem haldin var 7. febrúar, voru Sveinbjörn Björnsson, Hákon Ólafsson og Svana Helen Björnsdóttir sæmd heiðursmerki félagsins. Það er Merkisnefnd VFÍ sem útnefnir þá einstaklinga sem hljóta heiðursmerkið.

Árshátíð VFÍ verður 7. febrúar - 2.2.2009

Árshátíð Verkfræðingafélags Íslands verður haldin í Súlnasal Hótels Sögu laugardaginn 7. febrúar. Hátíðin verður glæsileg að vanda, boðið verður upp á fordrykk, þriggja rétta máltíð, skemmtiatriði og dansleik. Vinsamlega staðfestið miðapantanir.