• ristilspeglun tæki

Skimun á ristilkrabbameini

Einstakt átak sjúkra- og styrktarsjóða VFÍ.

26. sep. 2022

Sjúkra- og styrktarsjóðir VFÍ hafa gert samning við Miðstöð meltingarlækninga um framhald á átaki í skimun á ristilkrabbameini. Markmið átaksins er að veita fræðslu og beita forvarnaraðgerðum gegn krabbameini í ristli og endaþarmi. Sjóðirnir hafa staðið fyrir slíku átaki undanfarin ár með góðum árangri og eru fyrstu, ef ekki einu, sjúkra- og styrktarsjóðir hér á landi sem hafa gert slíkt.

Ristilspeglun er besta mögulega forvarnaraðgerð gegn ristilkrabbameini. Ef speglunin sýnir ekkert óeðlilegt þarf ekki að endurtaka hana fyrr en eftir 5 - 10 ár.

Athugið að sjóðfélagar fæddir 1972 og eldri fá boð um að panta tíma í ristilspeglun.

Vinsamlega kynnið ykkur vel það sem hér fer á eftir.

Sjúkra- og Styrktarsjóðir VFÍ greiða ristilspeglunina. Vinsamlega athugið að ef þörf er á frekari læknismeðferð, greiða Sjúkratryggingar Íslands venjulegt framlag og einstaklingurinn sjúklingagjaldið til dæmis ef vefjasýni er tekið til rannsóknar. Athugið að sjóðfélagi greiðir að fullu úthreinsiefnið sem notað er fyrir speglun.

Þau sem hafa áður farið í ristilspeglun vegna átaksins eiga ekki að fara aftur núna. Þau sem það á við eru á eftirlitsskrá hjá Miðstöð meltingarlækninga og verða boðuð aftur samkvæmt niðurstöðum fyrri speglunar, oft er endurkoma eftir 3 - 5 ár. Í þeim tilvikum sækir hver og einn um styrk hjá viðkomandi sjóði.

Til að fá tíma í ristilspeglun sendið þið tölvupóst til ritara Miðstöðvar meltingarlækninga á netfangið: bergdis@laeknastodin.is

Taka skal fram að viðkomandi er sjóðfélagi (í Sjúkra- eða Styrktarsjóði VFÍ), nafn, kennitala og símanúmer. Einnig að taka fram ef þið eruð á blóðþynningarlyfjum. Síðan verður tölvupóstur sendur til viðkomandi með upplýsingum um tíma og vísun í leiðbeiningar um undirbúning. 

Speglanirnar verða framkvæmdar á fyrirfram ákveðnum laugardögum. 

Leiðbeiningar um undirbúning og úthreinsun eru á vef Læknastöðvarinnar.