Viðurkenningar VFÍ á Meistaradegi

VFÍ veitti viðurkenningar á Meistaradegi Verkfræðistofnunar HÍ.

31. maí 2023

Verkfræðingafélag Íslands veitti þremur meistaranemum viðurkenningar fyrir fyrir sérlega vel unnar og áhugaverðar veggspjaldakynningar á Meistaradegi Verkfræðistofnunar sem fór fram í Grósku þann 30. maí. Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ afhenti viðurkenningarnar og flutti ávarp af því tilefni.

Á veggspjaldasýningunni kynntu 22 meistaranemar í verkfræði, tölvunarfræði og umhverfis- og auðlindafræði lokaverkefni sín en þau munu útskrifast 24. júní næstkomandi.

Gunnar Stefánsson, formaður stjórnar Verkfræðistofnunar HÍ setti Meistaradaginn og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs flutti ávarp. Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Heimkaupa var með hvatningu til meistaranemanna. - Eins og áður sagði ávarpaði Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ gesti á Meistaradeginum og afhenti viðurkenningar félagsins fyrir þrjú bestu veggspjöldin. 

Viðurkenningu hlutu þau Magnús Magnússon fyrir verkefnið Sjálfvirk flokkun á undirsvæðum heilastofns út frá segulómmyndum með djúpu tauganeti, Arnór Breki Ásþórsson fyrir verkefnið Hönnun og greining á gervifæti fyrir börn og Magdalena G. Bryndísardóttir fyrir verkefnið Áreiðanleiki og notagildi OpenQuake og ESRM20 við mat á jarðskjálftaáhættu á Íslandi.

Við óskum þeim innilega til hamingju og Verkfræðistofnun HÍ fyrir ánægjulegt samstarf.

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Steindór Guðmundsson, formaður Menntamálanefndar VFÍ, Magdalena G. Bryndísardóttir, Magnús Magnússon, Arnór Breki Ásþórsson og Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ.

Fleiri myndir eru í frétt á vef Verkfræðistofnunar HÍ.