• Tolva_graen_vefur

Ný umsögn: Reglugerð um netöryggisráð

21. ágú. 2023

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda um drög að reglugerð um netöryggisráð. Í kynningu Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis segir að hlutverk ráðsins sé einkum að fylgja eftir framkvæmd stefnu stjórnvalda á sviði net- og upplýsingaöryggis, að leggja mat á stöðu netöryggis á Íslandi og vera vettvangur upplýsingamiðlunar og samhæfingar. Reglugerðinni er ætlað að skýra skipan, hlutverk og ábyrgð netöryggisráðs.

Í umsögn VFÍ er gagnrýnt að ráðið verði eingöngu skipað fulltrúum sem eru í vinnu hjá stjórnvöldum og að  framlag nefndarmanna muni einkum ráðast af áhuga og þekkingu hvers og eins á málefninu. Í umsögninni segir meðal annars: „Að vísu er kveðið á um það að fulltrúar í ráðinu „skuli hafa sérfræðimenntun eða starfsreynslu á sviði net- og upplýsingaöryggis sem telst fullnægjandi að mati ráðherra“. Ólíklegt er að ráðuneytin og stofnanir þeirra hafi marga starfsmenn sem hafa sérfræðimenntun á þessu sviði eða teljandi starfsreynslu. Þetta er svið þar sem þörf er fyrir mikla sérmenntun sem bæta þarf ofan á grunnmenntun á sviði upplýsingatækni."

Reglugerð um netöryggisráð í Samráðsgáttinni.

Umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.

Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.