Jón Atli Benediktsson sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands

Sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélagsins á Degi verkfræðinnar.

20. nóv. 2023

Jón Atli Benediktsson, rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands var sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands á Degi verkfræðinnar.

Heiðursmerki VFÍ má veita í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf á sviði verkfræði eða vísinda, fyrir framtak til eflingar verkfræðingastéttinni í heild eða fyrir félagsstörf í þágu verkfræðingastéttarinnar. 

Í umsögn Merkisnefndar VFÍ segir meðal annars: 

„Jón Atli á að baki glæsilegan feril og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar hér heima og erlendis. Má nefna að hann hefur árlega verið á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims frá 2018, hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu 2021. Jón Atli hefur hlotið viðurkenningar frá SPIE og IEEE, Institute of Electrical and Electronics Engineers, sem eru stærstu alþjóðlegu samtök tæknimanna. Jón Atli var útnefndur rafmagnsverkfræðingur ársins af IEEE og Verkfræðingafélagi Íslands árið 2013.“

Umsögn Merkisnefndar VFÍ.

Á myndinni eru frá vinstri, Árni B. Björnsson framkvæmdastjóri VFÍ, Jón Atli Benediktsson rafmagnsverkfræðingur og rektor Háskóla Íslands og Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ.