Gerðardómur Verkfræðingafélags Íslands

Reglur

(Samþykktar á aðalfundi 27. febrúar 1974)

Verkfræðingafélag Íslands tekur að sér að skipa gerðardóm til að leggja fullnaðarúrskurð á ágreining manna í tæknilegum málum og öðrum þeim nátengdum.

1. gr.

Beiðni um skipun gerðardóms má senda stjórn Verkfræðingafélagsins, þegar ágreiningur rís út af samningi um vinnu, efnisframlög eða tæknileg mál og önnur mál þeim nátengd. Nú er ákveðið í samningi, að ágreiningur, sem rísa kann út af honum milli aðila, skuli útkljáður með gerðardómi eftir fyrirmælum þeim, sem hér eru sett, og nægir þá, að annar málsaðili beiðist gerðardómsins. Ef samningur aftur á móti ber það ekki með sér, að gerðardóms Verkfræðingafélagsins skuli leitað, eða ef samningur er enginn, en báðir málsaðilar vilja hlíta gerðardómi Verkfræðingafélagsins, skulu þeir báðir senda félagsstjórninni beiðni um skipun dómsins og jafnframt yfirlýsingu um, að þeir játist undir allar þær reglur, er hér eru settar.

2. gr.

Beiðni um gerðardóm skal vera skrifleg og stíluð til stjórnar Verkfræðingafélags Íslands.
Hún skal bera með sér:
Að óskað sé úrskurðar gerðardómsins.
Kröfugerð.
Stutta greinargerð um málsefni, er sýni hverrar sérþekkingar er þörf.

Beiðninni skulu fylgja:
Samningur aðila um, að málið skuli sæta úrlausn gerðardómsins, eða tilvísun til slíks samnings.
Gögn þau, sem kröfugerðin styðst við.

3. gr.

Gerðardómurinn skal í hverju máli skipaður þannig að fulltrúar málsaðila tilnefna hvor um sig einn mann, en formaður skal tilnefndur af Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt lögum nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, en áskilið er að formaðurinn uppfylli hæfisskilyrði til að vera skipaður hæstaréttardómari. Séu málsaðilar fleiri en einn til sóknar eða varnar í máli skulu þeir sameiginlega tilnefna mann í dóminn, en komi þeir sér ekki saman um tilnefninguna skal leitað til Héraðsdóms Reykjavíkur um skipun dómara til að taka sæti í dóminum.

Um málsmeðfer fyrir dóminum og kostnað af störfum hans skal farið samkvæmt lögum nr. 53/1989.

4. gr.

Ef ágreiningurinn er aðeins um smávægileg atriði, getur félagsstjórnin, með samþykki beggja málsaðila, kosið einn sérfróðan mann til að skera úr málinu í stað þess að skipa þriggja manna dóm. Skal gerðarmaður, að svo miklu leyti, sem því verður við komið, fylgja sömu reglum sem venjulegir gerðardómar, og skal hann, eftir þörfum, leita aðstoðar og ráða formanns gerðardómsins, sbr. 3. gr.

5. gr.

Þegar gerðardómurinn hefur tekið til starfa og kynnt sér málið eins og það liggur fyrir í þeim skjölum, sem beiðninni fylgdu, gefur hann báðum málsaðilum tækifæri til að skýra máið og leggja fram allar nánari upplýsingar, sem á þarf að halda. Málaflutningur er munnlegur, skriflegur eða hvort tveggja eftir ákvörðun dómsins. Hvor málsaðili um sig á rétt á að kynna sér það, er hinn málsaðilinn hefur borið fram, og fá útskrift úr gerðarbókinni um málið.

6. gr.

Málsaðilar eiga rétt á, að öllum frumritum, uppdráttum og þess konar sé skilað aftur að málinu loknu, en þó eigi fyrr en kostnaður við dóminn er greiddur. Allt annað, sem lagt hefur verið fram í málinu, sérstaklega allar skýrslur og mállýsingar, verður eign Verkfræðingafélagsins. Af öllum skjölum, sem skilað er aftur, getur stjórn félagsins krafist endurrits, er gerðardómurinn staðfestir.

7. gr.

Gerðardómnum er heimilt að leita sátta, hvort sem málið er langt eða skammt komið, ef ástæða þykir til.

8. gr.

Gerðardómnum er heimilt sjálfum að leita upplýsinga og gera rannsóknir í málinu. Krefjast má, að málsaðilar sjálfir mæti fyrir dómnum, ef það er ekki óhæfilegum vandkvæðum bundið. Einnig má krefjast, að aðilarnir geri sitt ýtrasta til að aðrir, sem hafa haft afskipti af málinu, gefi dómnum skýrslu. Aðila er rétt að hafa sérfróðan mann sér við hlið fyrir dómi, en þó getur dómurinn hvatt aðila einan fyrir sig, ef þurfa þykir.

9. gr.

Gerðardómurinn notar gerðabók, sem stjórn félagsins löggildir. Bókunina annast ritari, sem dómurinn tilnefnir, og sé hann venulega einn gerðarmanna. Skulu gerðarmenn (og ritari) undirskrifa gerðabókina í hver fundarlok. Einnig skulu þeir, sem mætt hafa á fundi, rita nöfn sín undir fundargerðina, en telji þeir eitthvað rangt bókað, eiga þeir rétt á að bóka athugasemd um það.

10. gr.

Nú telur dómurinn málið nægileg upplýst eða álítur, að málsaðilar hafi haft nægan tíma til að færa fram gögn sín, og skal þá málið tekið til úrskurðar. Ef dómurinn síðan, en áður en gerðin er upp kveðin, kemst að þeirri niðurstöðu að einhverjar upplýsingar vanti, sem hann telur nauðsynlegar, skal málið tekið til meðferðar að nýju og upplýsinganna leitað, ef til vill með aðstoð aðila. Að svo búnu skal gjarnan gefa báðum aðilum kost á að kynna sér málið, eins og þá er komið, og lýsa skoðun sinni og afstöðu.

11. gr.

Nú mætir ekki annar málsaðili fyrir dómnum eða stuðlar ekki á annan hátt að því að skýra málið eða greiða, og verður þá málið útkljáð eftir þeim upplýsingum, sem hinn aðilinn hefur lagt fram, og þeim sem dómurinn hefur sjálfur aflað sér. Nú er máli svo farið sem í 1. mgr. segir, og getur dómurinn þá vísað frá, ef hann telur efni til.

12. gr.

Dómurinn skal fara eftir samningum aðila, almennum lögum og landsvenjum. Gerðina skal kveða upp eins fljótt og unnt er og ekki seinna en fjórum vikum eftir að málið er tekið til úrskurðar. Með gerðinni skal leggja úrskurð á hvert einstakt ágreiningsatriði; einnig skal þar ákveðið, hverjir greiða skuli kostnað þann, sem gerðardómurinn hefur haft í för með sér. Stjórninni er heimilt að láta prenta gerðina í rímariti félagsins, annaðhvort í heild sinni eða að nokkru leyti; þó skal halda nöfnum hlutaðeigenda leyndum, ef þess er óskað eða hentara þykir.

13. gr.

Nú greinir dómendur á, og ræður þá meirihluti, enda fer um ágreining dómenda rökstuðning dóms og úrslit samkvæmt almennum réttarfarsreglum.

14. gr.

Stjórn félagsins getur, ef ástæða þykir til, krafist tryggingar málsaðila fyrir kostnaði við gerðardóminn, og sé í þessu tilliti farið eftir tillögum gerðarmanna. Að málinu loknu sendir gerðardómurinn stjórninni reikning til útskurðar um allan kostnað dómsins, þar með talin þóknun dómenda. Til greiðslu reikningsins á félagsstjórnin aðgang að báðum aðilum jafnt eða öðrum fyrir báða, hversu sem kostnaðinum í gerðinni er skipt á milli þeirra. Sá aðilinn, sem þannig kann að greiða meira en honum ber, á þá aðgang að hinum.Senda efni