Heiðursfélagar

HeiðursfélagaR og HEIÐURSMERKI VERKFRÆÐINGAFÉLAGS ÍSLANDS

Reglur um heiðursmerki VFÍ

1. gr.

Heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands er gullplata á prjóni með upphleyptu merki félagsins.

2. gr.

Heiðursmerki VFÍ er fyrst og fremst ætlað til sæmdar félagsmönnum. Heimilt er í undantekningartilvikum að sæma utanfélagsmenn.

3. gr.

Heiðursmerki VFÍ má veita í viðurkenningarskyni fyrir vel unnin störf á sviði verkfræði og tæknifræði eða vísinda, fyrir framtak til eflingar verkfræðinga- og tæknifræðingastéttinni í heild eða fyrir félagsstörf í þágu verkfræðinga- eða tæknifræðingastéttarinnar.

4. gr.

Framkvæmdastjórn VFÍ skipar þrjá menn úr hópi félagsmanna í merkisnefnd til sex ára í senn. Merkisnefnd gerir eigi sjaldnar en einu sinni árlega rökstuddar tillögur um veitingu heiðursmerkisins til eins eða fleiri félagsmanna.

5. gr.

Framkvæmdastjórn VFÍ tekur á framkvæmdastjórnarfundi afstöðu til tillagna merkisnefndar um veitingu og leggur þær fyrir aðalstjórn til samþykktar. Stjórn VFÍ er heimilt að taka við tillögum um veitingu heiðursmerkisins frá öðrum félagsmönnum. Henni ber þó að leita álits merkisnefndar áður en tillagan er lögð fyrir aðalstjórn til samþykktar.

6. gr.

Formaður VFÍ veitir heiðursmerki félagsins ásamt heiðursskjali á aðalfundi eða á árshátíð félagsins. Þegar félagsmaður er sæmdur heiðursmerki VFÍ, skal ávallt skýrt opinberlega frá því, hverjir sérstakir verðleikar hafi gert hann verðan sæmdarinnar.

7. gr.

Á heiðursskjali, er fylgir veitingu, skal rita nafn og starfsheiti þess, sem sæmdur er heiðursmerki félagsins. Ennfremur skal þar rita, hverjir sérstakir verðleikar hafi gert hann verðan sæmdarinnar. Heiðursskjalið er undirritað af formanni VFÍ.

8. gr.

Félagsmenn skulu sæmdir heiðursmerki VFÍ um leið og þeir eru útnefndir heiðursfélagar VFÍ, hafi þeim ekki verið veitt heiðursmerkið þá þegar.

9. gr.

Merkisnefnd skal skrá í gerðarbók nöfn þeirra manna, sem sæmdir eru heiðursmerki félagsins, ásamt dagsetningu veitingarinnar. Ennfremur skal skrá þar tilefni veitingarinnar sömu orðum og skráð eru á heiðursskjalið.

Reykjavík í janúar 1993.

Reglur um kjör og útnefningu heiðursfélaga Verkfræðingafélags Íslands  

1. gr.

Heiðursfélagi Verkfræðingafélags Íslands er sæmdarheiti, sem aðeins hlotnast mönnum, sem leyst hafa af hendi sérlega mikilsverð störf á sviði félagsmála VFÍ eða frábær verkfræði-  eða vísindastörf.

2. gr.

Stjórn VFÍ ber að leita álits merkisnefndar áður en tillaga um kjör heiðursfélaga er lögð fyrir aðalstjórn til samþykktar. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði allra aðalstjórnarmanna.

3. gr.

Formaður VFÍ lýsir kjöri heiðursfélaga á sérstökum viðhafnarfundi að viðstöddum aðalstjórnarmönnum VFÍ, handhöfum heiðursmerkis VFÍ, starfsmönnum VFÍ og merkisnefnd, ásamt mökum. Fulltrúum fjölmiðla skal og boðið að vera viðstaddir athöfnina.

4. gr.

Hinum nýútnefnda heiðursfélaga skal boðið að flytja erindi við athöfnina um sjálfvalið hugðarefni, sem tengist útnefningunni.

5. gr.

Á heiðursskjali, er fylgir útnefningu heiðursfélaga, skal rita nafn og starfsheiti þess, sem sæmdur er. Jafnframt skal þar rita, hverjir sérstakir verðleikar eru tilefni sæmdarinnar. Heiðursskjalið er undirritað af formanni VFÍ.

6. gr.

Félagsmenn skulu sæmdir heiðursmerki VFÍ um leið og þeir eru útnefndir heiðursfélagar, hafi þeim ekki verið veitt heiðursmerkið áður.

7. gr.

Merkisnefnd skal skrá í gerðarbók nöfn heiðursfélaga ásamt dagsetningu útnefningarinnar. Ennfremur skal þar skrá tilefni sæmdarinnar sömu orðum og skráð eru á heiðursskjalið.

8. gr.

Heiðursfélagi skal njóta allra réttinda fullgildra félagsmanna VFÍ án þess að greiða félagsgjöld. Honum skal boðið ásamt maka að sitja árshátíð og aðrar stórhátíðir félagsins.

9. gr.

Heiðursfélagar og aðrir handhafar heiðursmerkis VFÍ (sbr. reglur um heiðursmerki frá janúar 1983) mynda hóp sérstakra félagsmanna, sem nefnast Einherjar Verkfræðingafélags Íslands.

10. gr.

Einherjar VFÍ skulu koma saman til fundar að minnsta kosti einu sinni árlega og vera stjórn félagsins til ráðuneytis.