Góð ímynd með tilliti til jafnræðis.

Með jafnræðisstefnu vill VFÍ stuðla að jafnrétti óháð kyni, stöðu, litarhætti eða trúarbrögðum.

Stefna

Verkfræðingafélag Íslands vill stuðla að framgangi verkfræðistéttarinnar með því að hvetja til góðrar nýtingar þess mannauðs sem saman er kominn undir merkjum hennar. Því leggur félagið áherslu á að hver félagsmaður geti þroskast í starfi og verið metinn á faglegum forsendum - óháð fjölskyldustöðu, kyni, þjóðerni eða öðrum þáttum sem ekki flokkast undir faglega hæfni.

Stefnumið

  1. Verkfræðistörf hafi góða ímynd með tilliti til jafnræðis.
  2. Verkfræðistörf krefjist almennt ekki óhóflegra fórna á sviði fjölskyldu- og einkalífs.
  3. Félagsmenn verði meðvitaðir um kosti jafnræðis og fjölskylduvæns starfsumhverfis.
  4. Félagsmenn kunni skil á samþættingu jafnræðissjónarmiða við verkfræðistörf og notist við hana þegar við á.
  5. Félagsmenn sem teljast til minnihlutahópa innan verkfræðistéttarinnar njóti stuðnings VFÍ til að þróast og eflast faglega.
  6. Hæfustu aðilar hverju sinni verði skipaðir í nefndir og starfshópa á vegum félagsins, en jafnframt verði gætt að sem fjölbreyttustum bakgrunni fulltrúa.

Rökstuðningur

Auk augljósra réttlætissjónarmiða eru nokkrir þættir sem jafnréttishópurinn vill draga fram:

Mannauður

Framgangur verkfræðistéttarinnar er háður viðgangi og nýtingu þess mannauðs sem samankominn er undir merkjum verkfræðinnar. Því er það hagur verkfræðinga að finna og benda á leiðir til að hámarka nýtingu mannauðs.

Fjölbreytni

Fjölbreytni er einn styrkur verkfræðistéttarinnar á Íslandi, þ.e. sú staðreynd að verkfræðingar á Íslandi sækja menntun sína til mismunandi landa. Þannig aukast líkur á því að verkfræðistéttin á Íslandi búi yfir reynslu, þekkingu og sjónarmiðum sem nauðsynleg eru við lausn margvíslegra verkefna. Að uppfylltum faglegum kröfum er það því hagur stéttarinnar að verkfræðingar með sem fjölbreyttastan bakgrunn stundi verkfræðistörf á Íslandi –óháð kyni, þjóðerni eða kynþætti.

Viðhorfsbreyting

Sú kynslóð sem kemur inn á vinnumarkaðinn þessi árin gerir að mörgu leyti aðrar kröfur til samspils starfs og einkalífs en áður tíðkaðist. Ungir sérfræðingar af báðum kynjum telja virka þátttöku í fjölskyldulífi til mikilvægra lífsgæða. Þrátt fyrir faglegan metnað eru þeir ekki tilbúnir til að laga einkalíf sitt eingöngu að starfinu heldur kjósa þeir frekar að finna jafnvægi sem hentar þeim. Ástæður þessa eru m.a. þær að nú á tímum er algengara en áður að báðir foreldrar sinni krefjandi störfum utan heimilis. Því þykir eðlilegt að umsjón barna og ábyrgð á heimilishaldi deilist jafnt á bæði kynin.

Atvinnugrein eða fagstétt sem ekki lagar sig að þessum breytingum verður fyrir atgervisflótta fyrr eða síðar. Hann lýsir sér í minni nýliðun og auknu brottfalli, t.d. vegna foreldra sem leggja niður störf tímabundið eða til frambúðar vegna þess að þeir hafa enga möguleika á að laga vinnuumhverfi sitt að breyttum aðstæðum.

Rannsóknir hafa leitt í ljós (sjá t.d. Shirley Dex, Cambridge University –tilv. í skýrslu verkefnisins “Hið Gullna Jafnvægi”, Reykjavíkurborg, Gallup, o.fl.) að þau fyrirtæki sem hafa komið á sveigjanlegu vinnufyrirkomulagi hafa með litlum sem engum tilkostnaði náð fram meiri framleiðni í kjölfarið vegna minni starfsmannaveltu og aukins hagræðis samfara betri nýtingu mannauðs. Þannig hafa þau náð samkeppnisforskoti. Góð og virk fjölskyldustefna hjá fyrirtæki er því beggja hagur, starfsmanns og fyrirtækis.

Með sama hætti er líklegt að fagstétt sem leggur áherslu á virkjun mannauðs m.a. með því að beita sér fyrir auknum sveigjanleika í starfsumhverfinu dafni betur en ella.