Siðareglur Verkfræðingafélags Íslands

Siðareglur Verkfræðingafélags Íslands

Samþykktar á aðalfundi félagsins 31. mars 2011.

 

Virðing og jafnrétti

Félagar VFÍ sýna fólki tillitssemi og virðingu, óháð kyni, lífskjörum, þjóðfélagsstöðu, menningu, þjóðerni og kynþætti.

Þetta felur í sér að:

 • Koma fram af tillitssemi, sanngirni, vinsemd og virðingu við annað fólk.
 • Halda ávallt í heiðri góða siði og grundvallargildi samfélagsins.
 • Hafa í heiðri jafnrétti kynja og kynþátta.
 • Virða fag- og ábyrgðarsvið annarra og vinnuframlag þeirra.
 • Stuðla að góðum starfsanda með einlægni, heiðarleika og umburðarlyndi.

 

Fagleg ábyrgð og ráðvendni

Félagar VFÍ gera sér grein fyrir faglegri ábyrgð sinni og vinna í samræmi við viðurkenndar gæðakröfur.

Þetta felur í sér að:

 • Viðhalda og endurnýja stöðugt þekkingu sína og færni.
 • Deila þekkingu sinni og færni með samstarfsfólki.
 • Vinna verk sín af faglegri ábyrgð og eftir bestu samvisku.
 • Virða lög og reglur samfélagsins og stéttar sinnar.
 • Gæta hagsmuna viðskiptavina sinna.
 • Gera grein fyrir þeim tengslum eða hagsmunum, sem gætu gert starf þeirra tortryggilegt.
 • Taka ekki við þóknun eða fríðindum frá þriðja aðila í sambandi við verkið eða bjóða fram til þriðja aðila slíka þóknun eða fríðindi.

 

Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni

Félagar VFÍ eru meðvitaðir um áhrif verka sinna á samfélag, umhverfi og náttúru.

Þetta felur í sér að:

 • Setja ávallt í öndvegi öryggi, heilsu og velferð almennings.
 • Gæta þess, að tæknilegar lausnir séu miðaðar við sjálfbærni og ábyrga nýtingu auðlinda.
 • Vera heiðarlegur og hreinskilinn um margþætt áhrif tæknilegra lausna og annarra verkefna, og greina á viðeigandi vettvangi frá atriðum sem gætu ógnað öryggi almennings eða verið skaðleg umhverfinu.
 • Taka virkan þátt í upplýstri opinberri umræðu um samfélagsleg málefni þegar hún beinist að fagsviði verkfræðingsins.

 

Nýjar siðareglur VFÍ voru samþykktar á aðalfundi félagsins. Endurskoðun siðareglanna hófst með málþingi í október 2009 og í marsmánuði 2010 var vinnufundur með þjóðfundarformi. Í framhaldi af því var skipuð nefnd sem gerði tillögu að nýjum siðareglum. 
 

Greinargerð nefndar sem gerði drög að nýjum Siðareglum VFÍ.


 

Senda grein