Nýsköpunarvísitala: Ísland fellur um tvö sæti

Ísland er í 24. sæti landa í heiminum.

18. sep. 2025

Ísland er í tuttugasta og fjórða sæti landa í heiminum í nýútgefinni nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), Global Innovation Index 2024 og fellur um tvö sæti frá í fyrra. Ísland er nú í 20. sæti vísitölunnar þegar metnar eru aðstæður til nýsköpunar og fellur þar um fimm sæti en heldur 29. sætinu milli ára fyrir afrakstur nýsköpunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hugverkastofunni.

Þar kemur einnig fram að hvað varðar hlutfall háskólanema sem útskrifast úr STEM-greinum er Ísland í 98. sæti.

Ítarlegri upplýsingar um stöðu Íslands í nýsköpunarvísitölunni er að finna hér.

Nýsköpunarvísitala Alþjóðahugverkastofnunarinnar er nú gefin út í 18. skipti. Hún er byggð á 78 mælikvörðum sem teknir eru saman af fjölmörgum alþjóðlegum stofnunum og hefur skapað sér sess sem einn helsti alþjóðlegi mælikvarðinn á aðstæður og afrakstur nýsköpunar í heiminum. Ísland var í efsta sæti vísitölunnar árið 2010 og í 13. sæti árið 2016. Rétt er að taka fram að síðan þá hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á þeim mælikvörðum sem lagðir eru til grundvallar og staðan þá og nú er því ekki fyllilega samanburðarhæf.

Ekkert land framleiðir meira rafmagn á hvern íbúa

Þegar litið er til einstakra mælikvarða stendur ekkert land framar Íslandi í rafmagnsframleiðslu á íbúa, innlendri kvikmyndaframleiðslu, notkun umhverfisvænna orkugjafa og fjölda samninga um áhættufjármagn miðað við landsframleiðslu, líkt og í fyrra. Þá stendur Ísland vel varðandi stöðugt viðskiptaumhverfi (4. sæti), útgjöld til menntamála (6. sæti), vænta lengd skólagöngu (8. sæti), fjölda birtra vísindagreina á íbúa (5. sæti), hlutfall mannafla sem vinnur við rannsóknir og þróun (10. sæti), hlutfall mannaafla sem starfar í hugverkageiranum (6. sæti) og birtar vísindagreinar í samvinnu atvinnulífs og háskóla (7. sæti).

Ísland skorar hins vegar mjög lágt fyrir þjóðarframleiðslu miðað við orkunotkun (128. sæti), stærð innanlandsmarkaðar miðað við þjóðarframleiðslu (133. sæti), hlutfall útflutnings skapandi greina af heildarvöruviðskiptum (95. sæti) og hlutfall háskólanema sem útskrifast úr STEM-greinum (98. sæti).

Mikilvægt að vinna markvisst að vexti hugverkadrifins atvinnulífs

„Staða Íslands í nýsköpunarvísitölunni er að mörgu leyti góð og sýnir að við höfum traustan grunn til að byggja á. En lækkun Íslands á listanum síðustu ár er líka áminning um hversu mikilvægt það er að gæta sífellt að því að aðstæður fyrir nýsköpun séu sem bestar og að markvisst sé unnið að því styðja við vöxt hugverkadrifins atvinnulífs. Við höfum alla burði til að gera betur en það krefst markvissra aðgerða, bæði af hálfu opinberra aðila og atvinnulífsins.“ segir Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar.

Mælikvarðarnir að baki vísitölunnar eru flokkaðir í sjö nýsköpunarstoðir. Staða Íslands þegar rýnt er í þessar stoðir er mjög mismunandi. Ísland er í 2. sæti fyrir innviði, 14. sæti fyrir stofnanir, 19. sæti fyrir afurðir skapandi greina, 31. sæti fyrir mannauð og rannsóknir, 25. sæti fyrir þroska markaða, 18. sæti fyrir þroska viðskiptaumhverfis og 45. sæti fyrir afurðir þekkingar og tækni.

Skýringar á versnandi stöðu Íslands

Skýringa á versnandi stöðu Íslands í vísitölunni frá árinu 2010 má rekja annars vegar til þess að vægi mælikvarða sem mótast af stærð hagkerfa og fjölbreytni atvinnulífs hefur aukist, sem gerir ólíklegt að lítil hagkerfi séu ofarlega á listanum. Hins vegar hefur frammistaða Íslands í afrakstri nýsköpunar veikst á síðustu árum, einkum í útflutningi skapandi greina, fjölbreytni iðnaðar og fjölda útskrifaðra nemenda í STEM-greinum. Á sama tíma hafa önnur ríki náð meiri framförum og bætt stöðu sína. Ítarlegri upplýsingar um stöðu Íslands í nýsköpunarvísitölunni er að finna hér.

Sviss í efsta sæti

Sviss, Svíþjóð, Bandaríkin, Suður-Kórea og Singapore skipa fimm efstu sæti vístölunnar í ár og Suður-Kórea fellir Bretland út af topp-fimm listanum frá í fyrra. Kína er nú í fyrsta sinn á topp-tíu listanum. Hin Norðurlöndin eru öll á topp-tuttugu lista vísitölunnar í ár, Svíþjóð í 2. sæti, Finnland í 7. sæti, Danmörk í 9. sæti og Noregur í 20. sæti. Noregur var einu sæti fyrir ofan Ísland í fyrra en hækkar nú um eitt sæti.

Um nýsköpunarvísitölu WIPO

Nýsköpunarvísitala er gefin út af Alþjóðahugverkastofnuninni, (World Intellectual Property Organization, WIPO) og kemur nú út í 18. sinn. Vísitalan byggir á 80 fjölbreyttum mælikvörðum frá alþjóðlegum stofnunum og einkaaðilum sem eru notaðir til að meta nýsköpun og nýsköpunarumhverfi í um 140 löndum. Frá því að nýsköpunarvísitalan var fyrst birt árið 2007 hefur hún mótað viðmið um mælingar á nýsköpun og verið grundvöllur stefnumótunar stjórnvalda víða um heim. Frekari upplýsingar um einstaka mælikvarða er að finna hér.

Um Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO – World Intellectual Property Organization)

Alþjóðahugverkastofnunin er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur verið aðili að henni frá árinu 1986. Stofnunin ber ábyrgð á þeim samningum sem skapa samræmda umgjörð um hugverkaréttindi, s.s. alþjóðleg skráningarferli, útfærslu umsókna og skráninga og hlutverk hugverkastofa í hverju ríki. Á vegum stofnunarinnar starfa ýmsir vinnuhópar að uppfærslum og nútímavæðingu samninganna og verklags í kringum þá. Hugverkastofan á fulltrúa á þeim fundum sem varða vörumerki, einkaleyfi og hönnun og sækir auk þess allsherjarþing stofnunarinnar ár hvert.