Aldan hlaut íslensku hljóðvistarverðlaunin

Framúrskarandi hljóðvist í leikskóla.

13. nóv. 2025

Íslensku hljóðvistarverðlaunin voru veitt í annað sinn miðvikudaginn 12. nóvember. Verðlaunin hlaut leikskólinn Aldan á Hvolsvelli fyrir framúrskarandi hljóðvist. Sólbjört S. Gestsdóttir leikskólastjóri og Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings Eystra tóku á móti viðurkenningunni.

Íslensku hljóðvistarverðlaunin eru samstarfsverkefni Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) og Íslenska hljóðvistarfélagsins (ÍSHLJÓÐ).

Kristín Ómarsdóttir hljóðráðgjafi og EFLA sáu um hljóðhönnun byggingarinnar og Sverrir Þór Viðarsson var innanhússarkitekt. Leikskólinn Aldan var hannaður af P Ark teiknistofu af arkitektunum Páli V. Bjarnasyni og Ólöfu Pálsdóttur.

Samstarf VFÍ og ÍSHLJÓÐS

Í ávarpi sínu við veitingu Íslensku hljóðvistarverðlaunanna sagði Helgi Gunnarsson formaður VFÍ, meðal annars:„ Það er sérstaklega ánægjulegt að í ár veitum við viðurkenningu til verkefnis sem tengist leikskólum – þar sem grunnur að vellíðan, samskiptum og þroska barna er lagður. Verkfræðingafélag Íslands og Íslenska hljóðvistarfélagið hafa á síðustu árum eflt samstarf sitt og sameinast í því markmiði að auka skilning á mikilvægi góðrar hljóðvistar og hljóðhönnunar. Við viljum leggja áherslu á að góð hljóðvist er ekki munaður – hún er grunnþáttur í heilbrigðu, manneskjulegu umhverfi.

Á leikskólum hefur hljóðvist bein áhrif á líðan barna og starfsfólks. Þegar hljóðvistin er góð skapast ró, öryggi og betra andrúmsloft. Þetta snýst því ekki aðeins um tæknilega hönnun heldur um lífsgæði og jafnvel rétt barna til góðs umhverfis í leik og námi.“

Dómnefnd Hljóðvistarverðlaunanna er skipuð einstaklingum með þekkingu og áhuga á hljóðvist. Mat dómnefndar byggði á huglægu mati á hljóðvist, hugmyndafræði og fagurfræði. Í dómnefndinni voru Magnús Skúlason arkitekt, formaður dómnefndar, Bergþóra Kristinsdóttir verkfræðingur hjá Vegagerðinni og Sigurður Einarsson sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu.

ÍSHLJÓÐ

Íslenska hljóðvistarfélagið var stofnað árið 2006 og tilgangur félagsins er að tengja saman fólk sem vinnur við hljóðhönnun og hljóðvist á Íslandi. Félagið starfar sem faghópur innan Verkfræðingafélags Íslands.

Á myndinni eru frá vinstri: Helgi Gunnarsson formaður VFÍ, Páll V. Bjarnason arkitekt, Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri Rangárþings Eystra, Ólöf Pálsdóttir arkitekt, Kristín Ómarsdóttir formaður ÍSHLJÓÐS og Sólbjört S. Gestsdóttir leikskólastjóri.