Kveðja frá formanni VFÍ í upphafi árs

Helgi Gunnarsson formaður Verkfræðingafélags Íslands.

26. jan. 2026

Kæru félagar í Verkfræðingafélagi Íslands.

Áramótin eru góður tími til að líta yfir farinn veg og horfa til þeirra verkefna og tækifæra sem nýtt ár ber í skauti sér. Nýliðið ár var viðburðaríkt í starfi Verkfræðingafélags Íslands og einkenndist af öflugri hagsmunagæslu, faglegri umræðu og virku samstarfi við aðila utan félagsins.

Ég tók við formennsku í Verkfræðingafélagi Íslands á aðalfundi í apríl síðastliðnum. Fyrstu mánuðirnir hafa farið í að setja mig inn í þau fjölmörgu mál sem VFÍ sinnir fyrir hönd félagsmanna og vinna áfram að þeim verkefnum sem fyrri stjórn hóf. Þar hefur verið lögð áhersla á samfellu og að byggja á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið. Ég vil þakka forvera mínum, stjórn félagsins og starfsfólki fyrir gott samstarf.

Á árinu varð sá merki áfangi að félagafjöldinn fór yfir 6.000 manns. Fjölgun í félaginu hefur verið stöðug um langt árabil sem endurspeglar trausta ímynd, gott orðspor félagsins og mikilvægi þess hlutverks sem félagið gegnir fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga á Íslandi.

Kjarasamningar settu mark sitt á starfsárið

Gerð kjarasamninga var stór þáttur í starfi félagsins á árinu. Kjaraviðræður eru jafnan krefjandi og taka mikla orku. Sérstakar áhyggjur voru uppi vegna stöðu mála við gerð kjarasamnings við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV). Það hefur reynst áskorun að FRV framseldi samningsumboð sitt til Samtaka atvinnulífsins (SA), sem að mati VFÍ gerði samningaviðræður erfiðari og var minni skilningur en áður á stöðu verkfræðinga og tæknifræðinga á ráðgjafarstofunum.

VFÍ mun áfram leggja áherslu á að rödd félagsmanna heyrist skýrt og að samningar endurspegli þekkingu og ábyrgð í störfum þeirra. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka samninganefndum félagsins og trúnaðarmönnum fyrir þeirra mikilvægu störf í þágu félagsmanna.

Laun endurspegli menntun og eftirspurn

Kjarakönnun VFÍ er mikilvægur liður í starfsemi félagsins og veitir dýrmæta innsýn í stöðu félagsmanna á vinnumarkaði. Niðurstöður hennar voru kynntar í byrjun sumars og hafa verið mikilvægt verkfæri í kjaraviðræðum og opinberri umræðu. Í því samhengi hefur félagið bent á að lítill munur á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og ófaglærðra á Íslandi er óásættanlegur. Laun eiga að vera í takti við ábyrgð og menntun og mikil eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki á að endurspeglast í góðum starfskjörum.

Á árinu þurfti VFÍ að halda uppi vörnum fyrir mikilvægi fagþekkingar í opinberri stjórnsýslu. Félagið hefur gert athugasemdir við skipanir í stjórnir og stöðuveitingar hins opinbera þegar skort hefur á þá sérþekkingu sem nauðsynleg er til upplýstrar ákvarðanatöku. Má nefna meðal annars skipan stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Félagið telur brýnt að fagleg þekking og reynsla vegi þungt í slíkum ákvörðunum.

Nýr samráðsvettvangur um opinberar framkvæmdir

Einn af hápunktum ársins í starfi VFÍ var ráðstefnan „Risaverkefni – Stærðin skipti máli“, sem haldin var í lok febrúar. Í kjölfar hennar varð til nýr samráðsvettvangur um verkefnastjórnsýslu og opinberar fjárfestingar, í samstarfi við Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Háskólann í Reykjavík. Markmiðið er að efla samstarf, tengja saman þekkingu og stuðla að bestu starfsvenjum við opinberar framkvæmdir.

Dagur verkfræðinnar var haldinn í mars og við það tækifæri var Teningurinn afhentur. Dagurinn er mikilvægur þáttur í starfsemi VFÍ og hefur tekist að vekja athygli á stéttinni og á því mikilvæga framlagi sem verkfræðingar og tæknifræðingar leggja til samfélagsins.

Í tengslum við þetta má nefna að fulltrúar VFÍ fóru í vettvangsferð til að skoða varnargarðana á Reykjanesi, sem hlutu Teninginn fyrir tveimur árum. Það var mikil upplifun að sjá þessi mannvirki og fá skýra mynd af því hvernig þekking, hæfni og fagmennska verkfræðinga og tæknifræðinga hefur nýst í viðbrögðum við náttúruvá. Slík verkefni undirstrika með skýrum hætti mikilvægt framlag tæknimenntaðs fólks til öryggis samfélagsins og seiglu þess gagnvart náttúruöflunum.

Faglegt og félagslegt starf birtist einnig í Rýniferðum VFÍ. Slegið var met þegar 270 manna hópur fór á vegum félagsins til Japan. Slíkar ferðir eru mikilvægur vettvangur fyrir faglegan innblástur og tengslamyndun meðal félagsmanna.

Samhliða þessu hefur félagið lagt ríka áherslu á faglega þróun félagsmanna. Á árinu voru haldin námskeið í gervigreind fyrir fjölda félagsmanna, þar sem fjallað var um hagnýta notkun nýrrar tækni og þær breytingar, tækifæri og áskoranir sem hún hefur í för með sér.

Staðan í menntakerfinu áhyggjuefni

Þegar horft er fram á veginn vil ég leggja sérstaka áherslu á að styrkja tengsl VFÍ enn frekar við nemendur í verkfræði og tæknifræði og við háskólasamfélagið. Staðan í grunn- og framhaldsskólum er áhyggjuefni og mikilvægt að árangur nemenda sé í samræmi við það mikla fjármagn sem samfélagið ver til skólakerfisins. Verkfræðingafélagið vill leggja sitt af mörkum til að greina brotalamir og vinna að raunhæfum úrbótum í samvinnu við stjórnvöld og aðra hagaðila.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í starfsemi félagsins. Verkefnin eru næg og margt spennandi framundan. Fjárhagsleg staða félagsins er sterk og gefur færi á að halda áfram með góð verkefni og taka upp ný viðfangsefni. Rétt er að minna á að félagsgjöldin eru lág, föst fjárhæð en ekki prósenta af launum. Það þýðir að VFÍ hefur ekki sjálfkrafa tekið til sín hækkanir á félagsgjaldi vegna hækkunar launa, eins og önnur stéttarfélög hafa gert.

Að lokum vil ég þakka þeim fjölmörgu félagsmönnum sem sýna félaginu velvilja og eru tilbúnir að leggja fram krafta sína. Ég vil jafnframt hvetja yngri félagsmenn til að taka þátt í starfi félagsinsog koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Með virkri þátttöku er hægt að hafa raunveruleg áhrif á starfsemi VFÍ og móta framtíð félagsins.

 Með bestu kveðjum,
Helgi Gunnarsson, formaður Verkfræðingafélags Íslands.

formadur@verktaekni.is