VFÍ afhenti heimildamyndina: Trúin á tæknina
Myndin verður notuð í skólakerfinu og sýnd á RÚV.
Verkfræðingafélag Íslands fagnaði vorinu með því að afhenda íslensku samfélagi heimildamyndina: Trúin á tæknina – Svipmyndir úr sögu verkfræði og tækniframfara á Íslandi. Þar með fær skólakerfið frjáls afnot af myndinni sem einnig verður sýnd á RÚV síðar á þessu ári. Myndin var frumsýnd í október sl. fyrir fullu húsi í Bíó Paradís og hlaut frábærar viðtökur.
Tæknimenntun er lykill að árangursríkri nýsköpun og farsælli framtíð. Verkfræðingafélagið vill veita þjóðinni allri, þ.m.t. yngstu kynslóðinni, innsýn í hvernig verkfræðin er samtvinnuð sögu okkar og samfélagi.
Á vorfagnaði félagsins, sem haldinn var í Sjálfstæðissalnum föstudaginn 11. apríl, afhenti Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ myndina. Sigríður Valgeirsdóttir skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti tók við myndinni fyrir hönd Loga Einarssonar ráðherra. Ráðgert er að forsvarsmenn VFÍ muni eiga fund með ráðherra fljótlega og ræða samstarfsfleti og þau margvíslegu mál sem félagið vinnur að og vill beita sér fyrir.
Trúin á tæknina – Svipmyndir úr sögu verkfræði og tækniframfara á Íslandi.
Myndin var frumsýnd 17. október, fyrir fullu húsi í Bíó Paradís. Verkfræðingafélag Íslands ákvað að ráðast í gerð myndarinnar í tilefni af 110 ára afmæli félagsins árið 2022.
Höfundar myndarinnar eru þeir Adrian Freyr Rodriques og Einar Kári Jóhannsson. Ingi Kristján Sigurmarsson klippti og gerði hreyfigrafík, Guðlaugur Hörðdal samdi tónlistina og gerði hljóðmynd, sögumaður er Svandís Dóra Einarsdóttir og Egill Viðarsson tók upp og vann innálestur.
Til umfjöllunar eru jafnfjölbreytt viðfangsefni og vegagerð, virkjanir, hafna- og vitagerð, byggingaframkvæmdir, hitaveita, íslenskur iðnaður, háhitaboranir, hugbúnaðargerð, rafeindatækni og margt fleira.
Þetta er mynd um nútímavæðingu Íslands með áherslu á tæknina sjálfa og verkfræðiþekkinguna sem Íslendingar hafa öðlast.
Mikill metnaður var lagður í gerð myndarinnar, myndefnið er úr fjölmörgum áttum, sem sumt hefur ekki komið fyrir augu almennings áður.
Frábærar viðtökur
Óhætt er að segja að myndin hafi hlotið frábærar viðtökur og komið mörgum á óvart hversu mikið var lagt í gerð hennar, hvort sem litið er til textagerðar, myndvinnslu, tónlistar og hljóðvinnslu eða annars.
Fleiri myndir eru á facebooksíðu VFÍ.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla