Merkilegt starf á sviði íðorðasmíði.

Orðanefnd Byggingarverkfræðinga var stofnuð árið 1980 á vegum Byggingarverkfræðingadeildar VFÍ. 

Með starfi sínu stuðlar nefndin að því, að orðaforði á sviði verkfræði verði nægur til þess að ræða megi og rita um hana á fullgildri íslensku og með þeirri fræðilegu nákvæmni sem við hæfi er.

Viðfangsefni nefndarinnar er að koma upp íðorðasöfnum fyrir mismunandi svið byggingarverkfræðinnar. Frá fornu fari greinist byggingarverkfræði í mörg sundurleit svið, sem eiga undirstöðu víðs vegar í eðlisfræði, efnafræði, og náttúrufræði auk stærðfræði og margbreytilegri verkkunnáttu.

Íðorð er heiti á skilgreindu hugtaki í tiltekinni grein þekkingar. Á síðari árum hefur tekist alþjóðlegt samkomulag um það á vegum Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), hvernig hentugast sé að standa að íðorðasafni. Hafa sprottið af því alþjóðlegar verkreglur, sem orðanefndin hefur að leiðarljósi í starfi sínu.

Einar B. Pálsson var formaður nefndarinnar um langt árabil og jafnframt ritsjóri íðorðasafna sem nefndin gaf út.

Íðorðabók um umhverfistækni

Árið 2007 kom út Íðorðabók um umhverfistækni á vegum Orðanefndar byggingarverkfræðinga (OBVFÍ). Bókin var tuttugu ár í smíðum og að baki lá mikil vinna. Ritstjóri bókarinnar var Einar B. Pálsson, sem var formaður orðanefndarinnar frá upphafi. Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, fylgir bókinni úr hlaði og ritar formála hennar. Allir  byggingarverkfræðingar sem eru félagar í VFÍ fengu eintak af bókinni.

Á bókarkápu kemur fram að í bókinni er að finna rúmlega 1200 hugtök sem lúta að umhverfismálum frá sjónarhóli verkfræðinga og annars tæknimenntaðs fólks. Í orðasafninu eru fjölmörg nýyrði, samin af kostgæfni, ásamt hnitmiðuðum skilgreiningum hugtaka. Auk íslensku eru hugtökin á dönsku, ensku, sænsku og þýsku. Orðasafnið er unnið samkvæmt alþjóðlegum staðli um íðorðafræði og er sérstakur kafli í bókinni helgaður þeirri fræðigrein.

Dæmi úr nýju Íðorðabókinni um umhverfistækni

mengill m
DA forureningskilde c
EN pollutant SV föroreningskälla c
DE Schadstoff m

sem mengar umhverfi
Oft er það efnisleif eða orkuleif, sbr. spilliefni og spilliorka.
Orðið mengill beygist eins og sýkill.
Sjá mengunarorsakavensl og efnisleifarvensl.