Ný umsögn: Drög að samgönguáætlun 2023-2038

Stjórn VFÍ hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda.

8. ágú. 2023

Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda um drög að samgönguáætlun 2023-2038. Í kynningu Innviðaráðuneytis segir að samgönguáætlun sé nú lögð fram í einu lagi til 15 ára ólíkt því sem áður var, þ.e. stefnumótandi áætlun til 15 ára og aðgerðaáætlun fyrir fyrstu fimm ár áætlunarinnar.

Meiri áhersla á nýsköpun og tækni

Í umsögn VFÍ er meðal annars hvatt til þess að eitt af lykilviðfangsvefnum áætlunarinnar verði nýsköpun og tækni. Hraðar umbreytingar séu að verða á samfélagsgerð og hegðun sökum tækninýjunga, sjálfvirknivæðingar, samtengingar og gervigreindar. Þá leggur félagið til að loftslagsmál verði undirliggjandi viðfangsefni í öllum þáttum samgönguáætlunar. Einnig er hvatt til þess að ríkisvaldið stígi ákveðið til jarðar með hagrænum hvötum til að ná markmiði Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Í umsögninni segir meðal annars: „VFÍ leggur því til að lög um samgönguáætlun verði endurskoðuð á þann veg að í stað markmiðs um greiðar samgöngur komi markmið um hreyfanleika (e. Mobility). Markmið um hreyfanleika leggur minni áherslu á umferðarhraða og meiri áherslu á aðgengi milli staða og samræmist því betur öðrum markmiðum samgönguáætlunar um öruggar og umhverfislega sjálfbærar samgöngur heldur en markmið um greiðar samgöngur gerir í dag." 

Vegna álags á vegakerfið vegna þungaflutninga bendir VFÍ á að rétt sé að kanna hvort grundvöllur sé til staðar að færa landvöruflutninga yfir á sjó vegna fyrirsjáanlegra orkuskipta í minni flutningaskipum. Þá telur VFÍ einnig rétt að skilgreina grunnet hjóla- og göngustíga í landinu. „Með skilgreindu grunnneti almenningssamgangna og grunnneti hjólreiða- og göngustíga verður stefnumörkun markvissari til framtíðar og ákvarðanataka og fjárveitingar gegnsærri.˜

Samgönguáætlun í Samráðsgáttinni.

Umsögn Verkfræðingafélags Íslands.

Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.

Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.