• Riga_Vika_hópmynd

Rýnisferðin til Riga - ferðasaga

Jóhannes Benediktsson tæknifræðingur og fararstjóri tók saman.

2. okt. 2017

Dagana 23. til 27. september tók 55 manna hópur þátt í Rýni 2017  á vegum VFÍ  þar sem farið var til Riga í Lettlandi. Þetta var sautjánda Rýnisferðin en slíkar ferðir hófust á vegum TFÍ árið 1998. Ferðirnar hafa notið mikilla vinsælda frá upphafi. 

Á minjaskrá UNESCO

Riga_kvöldverðurÁ fyrsta degi var farið skoðunarferð um Riga sem er meira en 800 ára gömul eða frá árinu 1201. Þar blandast saman miðaldamiðbær og nútímaborg. Eftir að hafa verið undir erlendu hervaldi í um 700 ár var Lettland fullvalda ríki 1991. Síðan þá hefur landið þróast hratt og miðpunkturinn í þeirri þróun er höfuðborgin Riga þar sem búa um 750 þúsund manns og er borgin sú stærsta í Eystrasaltslöndunum. Gamli bærinn í Riga er á minjaskrá UNESCO þar sem minjar borgarinnar þykja miklar gersemar.

Að kvöldi fyrsta dags var öllum hópnum boðið til kvöldverðar þar Lýður Friðjónsson kynnti starfsemi Interior Solutions SIA sem sérhæfir sig í innréttingum, hurðum  og búnaði í  íbúðir og hótel. Fyrirtækið er með nokkur verkefni á Íslandi.

Timbur, framkvæmdir og gifs

Riga_timburbílarÁ öðrum degi ferðar var farið  i heimsókn til Vika Wood sem er einn stærsti timburframleiðandi í Lettlandi með 250 starfsmenn. Árleg framleiðsla er um 300.000 m3 á ári eða 1000 m3 á dag.  45% framleiðslunnar fara til Japan þar sem timbrið er notað i límtréframleiðslu. Önnur framleiðsla fer til ýmissra  Evrópulanda þar með talið Íslands.  Harald Kronberg framkvæmdastjóri Vika Wood fór yfir framleiðsluferilinn allt frá móttöku timburbola, flokkun, sögun, þurrkun og til pökkunar.

Samhliða ferð til Vika Wood var mökum boðið í dagsferð til  Jurmala sem er afar fallegur  strandbær   rétt utan við Riga. Bærinn stendur í gömlum fallegum skógi  þar sem allt umhverfið er friðað. Bærinn var einn vinsælasti sumardvalarstaður yfirmanna á Sovéttímanum.  Bærinn er enn þann dag í dag  afar eftirsóttur sumardvalarstaður.

Riga_kolbeinn_kolbeinssonFarið var á  stóran byggingastað sem stýrt er af Kolbeini Kolbeinssyni  verkfræðingi þar sem verið er að byggja 38.000 fermetra IKEA verslun í næsta sveitarfélagi við Riga. Kolbeinn sagði frá undirbúningi verksins og kom meðal annars   fram að framkvæmdaraðili  fjármagnar og hannar allar aðveitur að svæðinu auk gatnagerðar sem er ólíkt því sem þekkist á Íslandi. Byggingin er byggð upp að forsteyptum súlum og bitum sem Riga_ikeaKolbeinn sagði vera afar vel unnar. Fram kom að meðallaun iðnaðarmanna á svæðinu væru um 550 -  600 evrur á mánuði eða 70 -  80 þúsund íslenskra króna. Talið er að einungis 2% Letta séu með meira a 1000 evrur í mánaðarlaun.

Riga_hopmyndKNAUF Gifsplötuframleiðandinn er með stóra verksmiðju nærri Riga. Eftir góða kynningu og móttöku þar sem meðal annars var boðið upp á BALSAM, þjóðardrykk Letta, var farið í skoðunarferð um verksmiðjusvæðið sem nær yfir  80 hektara.  Í verksmiðjunni  þar sem 450 manns starfa er meðal annars 350 metra langt færiband þar sem plöturnar eru framleiddar. Fram kom í kynningu að hráefnið er sótt i gifsnámur sem liggja 3 - 10 km frá verksmiðjunni. Þegar námuvinnslu er lokið á hverju svæðið er námasvæðið fyllt af vatni sem myndar þá nýtt stöðuvatn til útivistar og böðunar fyrir íbúa og  ferðamenn á svæðinu. Mikla athygli vakti hreinlæti  og gott skipulag á verksmiðjusvæðinu.

Að kvöldi hvers dags fór hópurninn í sameiginlegan kvöldverð í miðbæ Riga og snæddur margrétta kvöldverður við undirleik innfæddra, auk þess sem einnig mátti heyra íslensk ættjarðarlög sungin er líða tók á kvöldið.

Fararstjórar í  ferðinni voru Jóhannes Benediktsson og Hreinn Ólafsson sem skipulagt hafa margar af Rýnisferðunum. Þegar er hafinn að undirbúningur að Rýni 2018 sem farin verður haustið 2018. Gert er ráð fyrir að ferðaáætlun og dagskrá verði auglýst í byrjun árs 2018.

Jóhannes Benediktsson.