VFÍ og Hagvangur vinna saman

Samstarf á sviði ráðninga og vinnumarkaðsmála.

29. jún. 2020

Verkfræðingafélag Íslands og Hagvangur hafa undirritað samkomulag um samstarf á sviði ráðninga og vinnumarkaðsmála. Það felur í sér meðal annars námskeiðahald og atvinnu- og starfslokaráðgjöf gagnvart félagsmönnum VFÍ. Markmiðið er að efla tengsl félagsmanna VFÍ við atvinnulífið á Íslandi með ráðgjöf og kynningu á aðferðum og tækni til árangursríkari starfsleitar og aukins sjálfstrausts í breyttum aðstæðum á vinnumarkaði.

Árni B. Björnsson framkvæmdastjóri VFÍ segir að samstarfið sé tvímælalaust beggja hagur. „Félagsmenn fá góðan stuðning og aðgang að fyrirmyndar þjónustu hjá Hagvangi. Þar innanhúss er verðmæt reynsla og skilningur á þörfum einstaklinga sem standa frammi fyrir breyttum aðstæðum. Við teljum samstarf sem þetta sérstaklega mikilvægt á óvissutímum á íslenskum vinnumarkaði og Verkfræðingafélagið vill vera sem best í stakk búið að aðstoða félagsmenn sína. Með þessu samstarfi fær Hagvangur tengsl við stærsta og öflugasta félag tæknimenntaðra á Íslandi og ég er sannfærður um að í þessu samstarfi felast mörg tækifæri til góðra verka.“

Katrín S. Óladóttir framkvæmdastjóri Hagvangs. „Við þökkum traustið sem VFÍ sýnir okkur og hlökkum til spennandi samstarfs. Samstarfið mun án efa veita gagnkvæm tækifæri til að styðja og efla vel menntað hæfileikafólk til að halda áfram að byggja upp öflugt atvinnulíf á Íslandi til framtíðar.

Verkfræðingafélag Íslands – félag verkfræðinga og tæknifræðinga er stærsta fag- og stéttarfélag tæknimenntaðra á Íslandi. Félagið var stofnað 1912 og í dag eru félagsmenn um 4.600 talsins. Auk þess er Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Stéttarfélag byggingarfræðinga með þjónustusamning við skrifstofu VFÍ.

Hagvangur var stofnað árið 1971. Fyrirtækið hefur verið farsælt og leiðandi á sviði ráðninga og mannauðsráðgjafar frá árinu 1976. Áralöng þekking og reynsla af atvinnulífi á Íslandi, sterkt tengslanet og gott orðspor hefur tryggt árangursríka starfsemi hátt í hartnær hálfa öld. 

Á myndinni eru Katrín S. Óladóttir framkvæmdastjóri Hagvangs, Hlynur Atli Magnússon ráðgjafi hjá Hagvangi og Árni B. Björnsson framkvæmdastjóri Verkfræðingafélags Íslands.

Félagsmenn sem vilja fá nánari upplýsingar um þessa þjónustu eru vinsamlega beðnir um að senda tölvupóst á netfangið: kjaramal@verktaekni.is