Viðurkenningar VFÍ á Meistaradegi

VFÍ veitti viðurkenningar á Meistaradegi Verkfræðistofnunar HÍ.

1. jún. 2022

Verkfræðingafélag Íslands veitti þremur meistaranemum viðurkenningar fyrir fyrir sérlega vel unnar og áhugaverðar veggspjaldakynningar á Meistaradegi Verkfræðistofnunar sem fór fram í Grósku þann 31. maí. Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ afhenti viðurkenningarnar og flutti ávarp af því tilefni. 

Á veggspjaldasýningunni kynntu meistaranemar í verkfræði og tölvunarfræði lokaverkefni sín  en þau munu útskrifast 25. júní næstkomandi. 

Gunnar Stefánsson, formaður stjórnar Verkfræðistofnunar HÍ setti Meistaradaginn og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs flutti stutt erindi. Erlingur Brynjúlfsson, rafmagns- og tölvuverkfræðingur hjá Controlant flutti einnig erindi og hvatningu til meistaranemanna. - Og eins og áður sagði flutti Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ ávarp og afhenti viðurkenningar félagsins fyrir þrjú bestu veggspjöldin. 

Viðurkenningu hlutu Andrea Rakel Sigurðardóttir fyrir verkefnið Greining hringorma með fáum fyrirmyndum á fjölrófsmyndagögnum, Kári Torfason fyrir verkefnið Tölulegar straumfræðihermanir á skurðarvél frá Völku og Magnea Freyja Kristjánsdóttir fyrir verkefnið Uppskera þörunga með himnusíun: ferilhönnun og endurheimt næringarefna.

Við óskum þeim innilega til hamingju og Verkfræðistofnun HÍ fyrir ánægjulegt samstarf.