Trúnaðarmenn eru valdir af samstarfsmönnum

Stéttarfélagið er bakhjarl trúnaðarmannsins.

Hlutverk trúnaðarmanna 

Stéttarfélagið er bakhjarl trúnaðarmannsins. Mjög misjafnt er eftir stéttarfélögum hvaða skyldum og hlutverkum trúnaðarmönnum er ætlað að gegna. 

Trúnaðarmaður er félagsmaður í stéttarfélagi sem valinn er af samstarfsmönnum sínum til þess að gæta hagsmuna þeirra gagnvart vinnuveitanda. Trúnaðarmaður stendur ekki einn og er stjórn og starfsmenn stéttarfélags honum til aðstoðar við að leysa úr þeim erindum sem upp kunna að koma og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins. Mikilvægasta hlutverk trúnaðarmannsins er að vera tengiliður milli félagsmanna á vinnustað og vinnuveitanda annars vegar og milli félagsmanna og stéttarfélags hins vegar.

Samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 V. kafla og lögum nr. 80/1938 - gr. 9-14 um stéttarfélög og vinnudeilur skal trúnaðarmaður gæta þess að vinnuveitandi haldi kjarasamning og réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur, einkum um orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti. Samkvæmt fyrrnefndum lögum ber trúnaðarmanni að rannsaka umkvartanir félagsmanna þegar í stað og komist hann að því að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda um lagfæringu.

Ef spurningar vakna vinsamlega sendið póst á netfangið: kjaramal@verktaekni.is

Helstu hlutverk trúnaðarmanns

Helstu hlutverk trúnaðarmanns gætu verið þessi:

 

  • Hafa eftirlit með því að atvinnurekandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings, laga og reglugerða um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á.
  • Meta hvaða ákvæðum kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, meðal annars þegar staðið er að undirbúningi fyrir kröfugerð vegna kjarasamninga.
  • Taka við umkvörtunum starfsmanna og vera talsmaður þeirra gagnvart atvinnurekanda.
  • Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni.
  • Taka á móti nýjum starfsmönnum, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess. 

 

Kosning trúnaðarmanna

Val trúnaðarmanna ber að tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað.

Kjósa skal trúnaðarmann á tveggja ára fresti.

Ekki er kveðið á um það í lögum hvernig standa skuli að kosningu trúnaðarmanna. Misjafnt getur verið eftir stéttarfélögum hvernig staðið er að kosningunni.

Mikilvægt er að hafa í huga að eftir tvö ár rennur kjörtímabil trúnaðarmanns út. Ef trúnaðarmaður er ekki endurkjörinn missir hann eftir tvö ár þá vernd og réttindi sem hann annars nýtur samkvæmt lögum. Sum stéttarfélög skilgreina hvenær árs kosning skuli fara fram og skipa sérstaka kjörstjórn eða fulltrúa stéttarfélags sem stýrir framkvæmd kosningar. Yfirleitt sér núverandi trúnaðarmaður um kosningu eftirmanns og ef einn trúnaðaðarmaður er í framboði meta sum stéttarfélög kosningu óþarfa. Þá er stéttarfélögum heimilt að skipa trúnaðarmenn þar sem ekki er hægt að koma við kosningu.

Verklag við kosningu trúnaðarmanna

Verklag Verkfræðingafélags Íslands og félaga sem hafa þjónustusamning við skrifstofu félagsins, ST og SFB, er sem hér segir. 

Skipaðir eru 2-3 starfsmenn á hverjum vinnustað í kjörstjórn og sjá þeir um framkvæmd kosninganna. Verkefni kjörstjórnar eru: 

  1. Athuga hvort fleira en eitt stéttarfélag sameinast um kosningu trúnaðarmanna.
  2. Ef öryggistrúnaðarmaður hefur ekki þegar verið kjörinn á vinnustaðnum má einnig kjósa hann á þessum fundi, að því tilskyldu að starfsmenn séu úr öllum stéttarfélögunum sem starfa í fyrirtækinu. Öðrum kosti verður að halda sér fund starfsmanna til að kjósa hann. Framboða er óskað með sama hætti og gildir um trúnaðarmenn og gæta verður að þessi kosning sé einnig tilgreind í fundarboði.
  3. Að fá lista hjá yfirmanni/launafulltrúa yfir hvaða starfsmenn eru á kjörskrá.
  4. Boða félagsfund um kosningu trúnaðarmanna; eins aðalmanns og eins varamanns.
    a) Góð regla er að boða fund með viku fyrirvara í tölvupósti og með auglýsingu til dæmis á kaffistofu eða öðrum áberandi stað.
    b) Leitað er eftir framboðum úr hópi viðkomandi starfsmanna til trúnaðarmanns í fundarboðinu.
  5. Kjörstjórn sér um að fundurinn sé rétt boðaður og hann haldinn með formlegum hætti, þar sem skipaðir eru fundarstjóri, fundarritari og starfsmenn skrá sig á viðverulista. Ef fleiri en eitt stéttarfélag sameinast um kosningu trúnaðarmanns er gott að fundarmenn skrái á listann í hvaða félagi þeir eru.
  6. Leitað er eftir samþykki fundarins að kosið sé með handauppréttingu en annars er kosið leynilegri kosningu.
  7. Kjörstjórn stýrir kosningu, sér um talningu og útbýr tilkynningar með nöfnum kjörinna trúnaðarmanna til fyrirtækis, stéttarfélaga og viðkomandi trúnaðarmanna.
  8. Hafi skipaður fulltrúi í samninganefnd hætt í samninganefnd/hjá stofnuninni er tilvalið að fá tillögur um fulltrúa frá félagsmönnum í hans stað. Stjórnir stéttarfélaganna skipa síðan formlega í samninganefndirnar. 

Tilkynning um kosningu

Val trúnaðarmanns/fulltrúa í samninganefnd/samstarfsnefnd skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað. Trúnaðarmaður telst ekki fá réttarstöðu og lögbundna vernd nema kosning hans hafi verið tilkynnt vinnuveitanda skriflega og sannanlega. Það er því mjög mikilvægt að kjörnir trúnaðarmenn gæti þess að tilkynningaskyldu sé fylgt eftir.

Fjöldaviðmið við kosningu

Fjöldaviðmið félagsmanna á vinnustað vegna kosningar trúnaðarmanns eða trúnaðarmanna er misjafnt eftir því hvort um félagsmenn á almennum markaði er að ræða eða félagsmenn sem starfa hjá hinu opinbera.

Almennur vinnumarkaður

  • Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 gr. 9 – 14 er heimilt að kjósa 2 trúnaðarmenn á hverri vinnustöð þar sem starfa a.m.k. fimm félagsmenn. Í sumum kjarasamningum sem gerðir eru á almennum vinnumarkaði eru fjöldaviðmið skilgreind víðar, það gildir þó ekki um kjarasamning félaganna í VFÍ og Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2011.
  • 13. gr. Heimilt er stéttarfélögum, eða stéttarfélögum og samböndum stéttarfélaga, að gera með sér samning um gagnkvæman stuðning. Er atvinnurekendum og öllum trúnaðarmönnum þeirra óheimilt að láta starfsmenn sína á nokkurn hátt gjalda þess, að þeir hafi gert slíka samninga eða stuðlað að því, að þeir yrðu gerðir.

Opinber vinnumarkaður (sveitarfélög og ríkisstarfsmenn)

  • Í lögum um opinbera starfsmenn nr. 94/1986 V. kafla er fjöldaviðmið víðara og er heimilt að kjósa 1 trúnaðarmann á starfsstöð þar sem starfa 5 eða fleiri félagsmenn og 2 trúnaðarmenn á vinnustöð þar sem 50 eða fleiri starfa. Samkvæmt fyrrnefndum lögum er heimilt að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess vegna starfsmanna á vinnustöðvum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda. Einstökum stéttarfélögum er heimilt að semja um aðra skipan á vali trúnaðarmanna en að framan greinir. Þá er heimilt að sameinast um trúnaðarmenn ýmist fyrir landssvæði, fleiri en eina stofnun eða milli stéttarfélaga hjá opinberum starfsmönnum.
  • Samkvæmt samkomulagi um trúnaðarmenn hjá ríki, Reykjavíkurborg og ýmsum sjálfseignarstofnunum er heimilt á þeim vinnustöðum þar sem starfsmenn vinna samkvæmt mismunandi vinnutímakerfum að kjósa einn trúnaðarmann hið minnsta fyrir hvert vinnutímakerfi.