Teningurinn er viðurkenning Verkfræðingafélags Íslands.

Árleg viðurkenning fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd. 

Teningurinn er viðurkenning Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd. Teningurinn er afhentur á Degi verkfræðinnar ár hvert og eru það verkefni fyrra árs sem koma til greina. (Að þessu sinni koma til greina verkefni 2023 og 2024).  Auglýst er eftir tilnefningum meðal félagsmanna VFÍ en öllum er frjálst að senda inn tilnefningu, eina eða fleiri.

Ferli við tilnefningu

Ferli vegna tilnefninga er í tveimur þrepum. Í upphafi er nægilegt að senda inn ábendingu um verkefni sem er talið koma til greina. Þar þarf að koma fram stutt lýsing á verkefninu og upplýsingar um tengilið sem má hafa samband við, netfang hans og símanúmer.

Senda inn tilnefningu.

Dómnefnd fer yfir innsendar ábendingar og óskar eftir ítarlegri upplýsingum um verkefni sem hún telur koma til greina. 

Tengiliður við dómnefnd er Sigrún S. Hafstein sem jafnframt veitir nánari upplýsingar sigrun@verktaekni.is

Um Teninginn

Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem verkfræðingar og tæknifræðingar vinna að.

Viðurkenningin er veitt fyrir verkefnið í heild og er það eigandi (bakhjarl) verkefnisins sem hana hlýtur. Verkefni sem eru tilnefnd geta verið af ýmsum toga, til dæmis framkvæmdaverkefni, nýsköpunarverkefni, hugbúnaðarverkefni eða umbótaverkefni. Verkefni unnin erlendis af íslenskum fyrirtækjum koma einnig til greina.

Viðmið dómnefndar

Sex viðmið eru lögð til grundvallar í mati dómefndar:

- Hver er samfélagslegur ávinningur verkefnisins?
- Hvert er nýsköpunargildi verkefnisins?*
- Stóðst verkefnið tímaáætlun?
- Stóðst verkefnið kostnaðaráætlun?
- Stóðst verkefnið kröfur til gæða?
- Voru öryggis- og heilbrigðismál og vinnuumhverfi verkefnisins til fyrirmyndar?

Hver dómnefndarmaður gefur einkunn fyrir hvert viðmið og það verkefni sem hlýtur hæstu meðaltals einkunn hreppir verðlaunin.
* Nýsköpunargildi hefur víða skírskotun og er ekki bundið við uppfinningu nýrrar vöru eða búnaðar. Getur til dæmis falist í nýjum leiðum í framkvæmdum, eða verkþættir betur útfærðir en áður.

Handhafar Teningsins

Össur 2022
Carbon Recycling International - CRI hf. 2021
Controlant 2020
Carbfix 2019

Verkfræðilegur verðlaunagripur - Hugmyndin að baki

Verðlaunagripurinn hefur vakið verðskuldaða athygli. Hönnuðir eru Narfi Þorsteinsson, listamaður og grafískur hönnuður og Adrian Rodriques BS í verkfræði og hönnuður. 

Í hönnunarferlinu skoðuðu þeir tímabilið þegar verkfræðigreinin kom fyrst til Íslands um 1920 og vildu endurspegla það í listasögunni með vísan til hugsmíðahyggju (constructivism). Íslenskir listamenn eins og Gerður Helgadóttir veittu þeim mikinn innblástur. Að mati hugsmíðahyggjunnar var listinni ætlað að endurspegla nútíma iðnað og nýta þá tækni sem var aðgengileg hverju sinni. Við hönnun og framleiðslu Teningsins var notuð þrívíddarteikningu, þrívíddarprentun, laserskurður og CNC vinnsla - (eitthvað sem ekki hefði verið hægt að nota auðveldlega fyrir tíu árum síðan). Markmiðið var að hanna hlut sem er stærðfræðilega áhugaverður. Hönnunin er byggð á þrettán teningum sem allir styðja hver annan og snúast um formúlu Theodórusar (Theodorus spíral), grísks stærðfræðings á 6. öld. 

Teningurinn.