Upplýsingabrunnur um kjör verkfræðinga og tæknifræðinga.
VFÍ er upplýsingabrunnur um kjör verkfræðinga og tæknifræðinga. Mikilvægt er að félagsmenn séu upplýstir um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.
Á vinnuréttarvef Alþýðusambands Íslands eru ítarlegar upplýsingar um ýmislegt er varðar réttindi og skyldur á vinnumarkaði, til dæmis orlof, uppsagnir, dagpeninga og fæðingarorlof. Þessar upplýsingar byggja á bókum Láru V. Júlíusdóttur hrl. sem er lögmaður VFÍ. Lögfræðideild ASÍ hefur þróað efnið áfram samfara breytingum á kjarasamningum og tilkomu nýrra laga á vinnumarkaði. Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem oft er spurt um.
Stytting vinnutíma
Í kjarasamningi Verkfræðingafélag Íslands við Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV) sem undirritaður var 29. maí sl. var gerð bókun um framkvæmd vinnutímastyttingar sem á að taka gildi frá og með 1. janúar 2020.
Bókunin hljóðar svo:
„Vinnutímastytting tekur gildi 1. janúar 2020. Atvinnurekendur skulu hafa samráð við launamenn um tillögu að útfærslu vinnutímastyttingar á grundvelli eftirfarandi valkosta:
- Hver dagur styttist um 9 mínútur.
- Hver vika styttist um 45 mínútur.
- Safnað upp innan ársins.
- Vinnutímastytting með öðrum hætti.
Samkomulag skal hafa náðst um framkvæmd vinnutímastyttingar fyrir 1. desember 2019. Ef samkomulag næst ekki styttist vinnutími um 9 mínútur á dag miðað við fullt starf.
Atvinnurekanda er heimilt vegna skipulags og nauðsynlegrar samræmingar á vinnustað að tilkynna starfsmanni með a.m.k. mánaðar fyrirvara um breytt fyrirkomulag vinnutímastyttingar.“
Í kjarasamningi Verkfræðingafélags Íslands við Samtök atvinnulífsins (SA) var ekki samið um vinnutímastyttingu. Það er samt ekkert því til fyrirstöðu að þau fyrirtæki sem fara eftir kjarasamningi SA vinni eftir þessu fyrirkomulagi.
Ferðakostnaður - Akstursgreiðslur og dagpeningar
Þegar starfsmaður leggur til eigin bifreið til afnota fyrir vinnuveitanda er mismunandi hvernig greitt er fyrir afnotin. Yfirleitt er greitt samkvæmt svokölluðu kílómetragjaldi. Þá er ýmist gerður samningur um afnotin og greitt fyrir ákveðinn fjölda kílómetra eða starfsmaður færir akstursbók og fær greitt fyrir ekna kílómetra.
Þegar starfsmaður þarf að ferðast í vinnu sinni greiðir vinnuveitandi útlagðan kostnað vegna ferðarinnar. Starfsmaður á að geta fengið fyrirframgreiðslu upp í áætlaðan kostnað. Við uppgjör þarf síðan að leggja fram reikninga í frumriti. Algengt er hins vegar að greiða „dagpeninga" fyrirfram.
Þegar ákveða á greiðslu er algengt að miða við "akstursgjald og dagpeninga ríkisstarfsmanna" en upplýsingar um það má finna á vef fjármálaráðuneytisins .
Fæðingarorlof
Lög um fæðingar- og foreldraorlof hafa mikla þýðingu en þar er körlum tryggður réttur til töku fæðingarorlofs til jafns við konur. Í lögunum eru einnig ákvæði um foreldraorlof.
Í lögum um fæðingarorlof er að finna ákvæði um rétt foreldra til töku foreldraorlofs í alls 13 vikur. Taka þarf orlofið áður en barn nær 8 ára aldri.
Upplýsingar eru á vef Fæðingarorlofssjóðs og á vinnuréttarvef ASÍ
Orlof
Réttur til töku orlofs er bundinn í lög en þar er um lágmarksorlofsrétt að ræða, 24 orlofsdaga á ári. Einnig segir í lögunum að taka skuli þetta orlof og ekki flytja það milli ára. Ef aðstæður eru þannig að starfsmaður skiptir um starf við lok orlofsárs, 1. maí, á hann engu að síður rétt á 24 daga orlofi á fyrsta ári hjá nýjum vinnuveitanda. Hins vegar á hann í því tilviki ekki rétt á launum enda búinn að fá þau greidd við starfslok í fyrra starfi.
Í kjarasamningum hefur verið samið um lengra orlof en lögin segja til um og um flutning orlofs á milli ára.
Upplýsingar um orlof og frídaga eru á vinnuréttarvef ASÍ.
Orlofsuppbót
Samið er um orlofsuppbót í kjarasamningum. Uppbótin greiðist með maílaunum 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí.
Orlofsuppbót 2024 samkvæmt kjarasamningum VFÍ
Samtök atvinnulífsins (SA)
Á árinu 2024 kr. 58.000.-
Á árinu 2025 kr. 60.000.-
Á árinu 2026 kr. 62.000.-
Á árinu 2027 kr. 64.000.-
Ekki er búið að semja við neðangreinda aðila, upphæðir eru frá 2023.
Ríkið kr. 56.000.-
Reykjavíkurborg kr. 56.000.-
Önnur sveitarfélög kr. 55.700.-
Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV) kr. 56.000.-
(Athugið að í kjarasamningi við FRV sem undirritaður var í desember 2023 var í fyrsta sinn samið um desember- og orlofsuppbót).
Upplýsingar um orlofsuppbót hjá öðrum hópum má finna í kjarasamningum á stikunni hér til hliðar.
Desemberuppbót
Desemberuppbót er eingreiðsla sem atvinnurekendum ber samkvæmt kjarasamningi að greiða starfsmönnum sínum í byrjun desember ár hvert, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.m.t. að því er varðar starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári.
Kjarasamningur við Samtök atvinnulífsins er viðmiðunarsamningur á almennum vinnumarkaði verkfræðinga og tæknifræðinga. Uppbótin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall en fullt ársstarf telst a.m.k. 45 unnar vikur fyrir utan orlof.
Samtök atvinnulífsins (SA)
Desemberuppbót 2024 kr. 106.000.-
Desemberuppbót 2025 kr. 110.000.-
Desemberuppbót 2026 kr. 114.000.-
Desemberuppbót 2027 kr. 118.000.-
Ekki er búið að semja við neðangreinda aðila, upphæðir eru frá 2023.
Ríkið
Desemberuppbót 2023 kr. 103.000.-
Reykjavíkurborg
Desemberuppbót 2023 kr. 115.000.-
Önnur sveitarfélög
Desemberuppbót 2023 kr. 131.000.-
Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV)
Desemberuppbót 2023 kr. 103.000.-
Upplýsingar um desemberuppbót hjá öðrum hópum má finna í kjarasamningum á stikunni hér til hliðar.
Uppsagnir
Samkvæmt lögum miðast uppsögn við mánaðamót. Algengast er að gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir. Um uppsagnarfrest er fjallað í kjarasamningum og er hann nokkuð mismunandi eftir því hvort um er að ræða almennan eða opinberan vinnumarkað.
Gagnlegar upplýsingar um lok ráðningarsambands eru á vinnuréttarvef ASÍ
Lífeyrisréttindi
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði.
Ávinningur
Ellilífeyrir til æviloka.
Örorku- og barnalífeyrir ef sjóðfélagi missir starfsgetu.
Maka- og barnalífeyrir við fráfall sjóðfélaga.
Möguleiki á lánum frá lífeyrissjóð, m.a. vegna húsnæðiskaupa.
Verkfræðingar eru flestir í Lífsverk lífeyrissjóði en tæknifræðingar í Almenna lífeyrissjóðnum.
Á fræðsluvef Landssamtaka lífeyrissjóða eru gagnlegar upplýsingar um lífeyrismál.
Launaviðtöl
Starfsmaður hefur samningsbundinn rétt á viðtali við yfirmann sinn einu sinni á ári um störf sín og hugsanlega leiðréttingu á starfskjörum. Óski starfsmaður eftir viðtali á að veita það innan tveggja mánaða og niðurstaða viðtalsins á að liggja fyrir innan mánaðar.
Í launaviðtali er ekki einungis verið að semja um laun heldur einnig um vinnuframlag og mikilvægi starfsmannsins og horft til þeirra þátta er snúa að starfsumgjörð viðkomandi.
Þess ber að geta að starfsmannasamtal er ekki launaviðtal og ber ekki að nefna laun við það tækifæri.
Launaviðtalið þarf ekki eingöngu að snúast um launin. Sumir vilja semja um önnur starfskjör eins og sveigjanlegan vinnutíma, fleiri orlofsdaga, námsstyrk, ferðastyrk, bifreiðastyrk o.fl.
Kjaradeild VFÍ heldur reglulega námskeið í launaviðtölum. Þau eru auglýst með tölvupósti til félagsmanna.
Glærur frá kynningarfundi um launaviðtöl.