Fyrir þá sem starfa hjá ríki eða sveitarfélögum.
Aðild að Styrktarsjóðnum eiga verkfræðingar og tæknifræðingar sem starfa hjá ríki, borg og öðrum sveitarfélögum. Atvinnurekandi skilar iðgjöldum til VFÍ. Sjóðurinn greiðir sjúkradagpeninga og styrki vegna útlagðs kostnaðar sjóðfélaga.
Aðild að styrktarsjóði eiga verkfræðingar og tæknifræðingar hjá ríki, Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum sem greitt er fyrir í sjóðinn. Einnig starfsmenn hálfopinberra fyrirtækja eins og OR, ON og Veitna. Aðild að sjóðnum er háð því að viðkomandi sé félagi í VFÍ.
Megin tilgangur sjóðsins er að greiða sjúkradagpeninga til sjóðfélaga sem eru í starfi en lenda tímabundið út af launaskrá eða verða fyrir launaskerðingu vegna veikinda eða slysa. Auk þess eru greiddir styrkir vegna kostnaðar sem tengist heilsu, til dæmis líkamsræktarstyrkir, sjúkraþjálfun o.fl.
Í starfsreglunum er að finna almennar úthlutunarreglur.
Stjórn Styrktarsjóðs VFÍ fundar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar.
Öflugur sjóður með sérstöðu
Styrktarsjóður VFÍ hefur þá sérstöðu að iðgjaldið er að stærstum hluta séreign sjóðfélaga og safnast í svokallaðan „pott".
Þvert á við stöðu sjúkrasjóða margra annarra stéttarfélaga hefur Styrktarsjóður VFÍ ekki þurft að skerða réttindi og staða sjóðsins er sterk.
Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekki eru veittir styrkir vegna búnaðar, s.s. líkamsræktartækja, reiðhjóla, skó- og útivistarfatnaðar. Hverja greiðslukvittun má aðeins nota einu sinni, hún þarf að fylgja umsókn og má vera allt að 12 mánaða. Kvittunin þarf að vera útgefin af söluaðila. Á kvittuninni þarf að koma fram nafn og kennitala bæði sjóðfélaga og seljanda. Einnig þarf að koma fram hvað er verið að greiða fyrir.
Athugið að sækja tímanlega um styrki til líkamsræktar. Umsóknir þurfa að berast fyrir 1. desember ár hvert ef nýta á rétt til skattleysis á árinu. Sjóðurinn fullnýtir heimildir ríkisskattstjóra til skattleysis slíkra styrkja sem er að hámarki kr. 77.000.- á ári miðað við áunnin réttindi.
Breytingar á reglum Styrktarsjóðs VFÍ
Sjóðfélagar fengu tölvupóst 12. nóvember 2018 þar sem kynntar voru nýjar úthlutunarreglur sjóðsins sem gilda frá áramótum 2018-2019.
Í stuttu máli fela breytingarnar það í sér að svokallaðir heilsustyrkir munu í framtíðinni verða greiddir út sem hlutfall af uppsöfnuðu iðgjaldi hvers sjóðfélaga síðustu 36 mánuði.
Með þessu eru teknar upp sambærilegar reglur og gilda í Sjúkrasjóði VFÍ (launþegar á almennum markaði). Tryggingafræðileg úttekt leiddi í ljós að breytingar voru nauðsynlegar til að tryggja örugga afkomu Styrktarsjóðsins og möguleika á að hann geti staðið við samtryggingarlegur skyldur sínar, sem eru greiðsla sjúkradagpeninga og styrkja þegar áföll verða í lífi sjóðfélaga.
Heilsustyrkir eru (sbr. nýjar starfsreglur
sjóðsins):
„Líkamsrækt, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sjúkranudd, kírópraktor, meðferð hjá
sálfræðingi, hjúkrunarfræðingi, félagsráðgjafa, fjölskylduráðgjafa eða
sambærilegum viðurkenndum meðferðaraðila. Foreldranámskeið, krabbameinsskoðun,
hjarta-, lungna- og æðaskoðun. Gleraugu, linsur og heyrnartæki, lyf,
tannlækningar, lýtalækningar og aðrar lækningar“.
Tekið skal fram að hægt er nota uppsafnað iðgjald í allt það sem að framan greinir eftir þörfum og óskum hvers sjóðfélaga.
Engar breytingar verða á samtryggingarlegu hlutverki sjóðsins. Allir sjóðfélagar munu eiga sama rétt til dagpeningagreiðslna.
Fæðingarstyrkur, styrkur til ættleiðingar og tæknifrjóvgunar, dánarbætur og styrkur til laseraðgerða mun ekki breytast.
Þess ber að geta að iðgjald sem greitt er fyrir félaga í sjóðnum er mismunandi eftir kjarasamningum. Þannig eru iðgjöld sem eru greidd fyrir félaga sem starfa hjá ríkinu 0,55% af heildartekjum, 0,75% af heildartekjum þeirra félaga sem starfa hjá Reykjavíkurborg og 1% af heildartekjum þeirra félaga sem starfa hjá öðrum sveitarfélögum.
Með þessum breytingum er framtíð sjóðsins tryggð og visst réttlæti fæst með því að heilsustyrkir eru bundnir við iðgjöld hver og eins. Einnig fá sjóðfélagar meira frelsi varðandi ráðstöfun réttinda.
Afhverju vottorð?
Sumir furða sig á því að sjóðurinn geri kröfu um vottorð þegar sótt er um styrki; sérstaklega á þetta við fæðingarvottorð. Fjármunir Sjúkra- og Styrktarsjóðs VFÍ eru samtrygging félagsmanna og mikilvægt að fara vel með og vanda til verka. Ábyrgð VFÍ er mikil að hafa þessa sjóði í sinni vörslu.
Reglur vegna styrkja verða að vera skýrar og formsatriðin á hreinu, þó þau kunni stundum að virðast óþarfa vesen. Þá verður að hafa í huga að til dæmis á árinu 2023 voru veittir 6.890 styrkir.
Við vonum að sjóðfélagar sýni þörfinni á tiltölulega ströngum starfsreglum skilning.
Starfsreglur og reglugerð
Rafrænt umsóknareyðublað er í valmyndinni. Athugið að framvísa verður kvittunum.
Nánari upplýsingar og fyrirspurnir.