Viltu læra verkfræði eða tæknifræði?
Nám í þessum greinum er spennandi og gefur mörg tækifæri. Möguleikar til framhaldsnáms og símenntunar eru óþrjótandi og skapandi hugsun fær útrás í að móta samfélagið og framtíð þess.
Hvað er verkfræði?
Verkfræði er fræði- og starfsgrein sem beitir vísindalegum aðferðum, sem einkum byggjast á stærðfræði og eðlisfræði við hönnun, rannsóknir, verkstjórnun, ráðgjöf og eftirlit.
Í verkfræðinámi læra nemendur að greina flókin og fjölbreytt viðfangsefni og þróa lausnir sem byggja á stærðfræði- og raunvísindaþekkingu. Námið miðar að því að efla frumkvæði nemenda og sjálfstæð vinnubrögð.
Lengd náms er fimm ár. Eftir þriggja ára nám til BS-gráðu bæta nemendur við sig tveggja ára námi til MS-gráðu sem veitir rétt til að sækja um starfsheitið verkfræðingur, sem er lögverndað.
Hvar læri ég verkfræði, hvernig er námið?
Við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands eða tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Einnig hafa fjölmargir Íslendingar lært verkfræði í hinum ýmsu löndum.
Inntökuskilyrði eru stúdentspróf. Góður grunnur í stærðfræði og eðlisfræði er nauðsynlegur.
Verkfræði er skipt niður í undirgreinar en grunnur hverrar greinar er svipaður þó þær fáist við ólíka hluti. Helstu svið verkfræðinnar eru: byggingarverkfræði, rafmagnsverkfræði, vélaverkfræði, umhverfisverkfræði, hugbúnaðarverkfræði, efnaverkfræði, heilbrigðisverkfræði og rekstrarverkfræði.
Hvað gera verkfræðingar?
Við lifum í tæknisamfélagi þar sem verkfræðingar og þeirra störf hafa áhrif á nánast allt daglegt líf. Heimurinn reiðir sig á sköpunargáfu og vinnu þeirra til að skapa, byggja og bæta tæki og vörur sem notaðar eru í daglegu lífi. Þjálfun í að greina viðfangsefni og velja hagkvæmustu aðferðir til úrlausnar gerir verkfræðinga einnig eftirsótta stjórnendur og leiðtoga fyrirtækja og stofnana.
Verkfræðin er mjög fjölbreytt og býður upp á mikla framtíðarmöguleika. Verkfræðingar starfa í öllum geirum atvinnulífsins við stjórnun, eftirlit, ráðgjöf, framkvæmdir, verkefnastjórnun, hönnun og nýsköpun.
Verkfræðingar starfa hjá öllum helstu fyrirtækjum landsins, stórum og smáum.
Áhugaverðir tenglar
Háskóli Íslands
Háskólinn í Reykjavík
Youtube rás Háskólans í Reykjavík
Youtube rás Háskóla Íslands
Hvað er tæknifræði?
Tæknifræði er þriggja og hálfs ár háskólanám sem lýkur með BS gráðu. Námið veitir rétt til að sækja um starfsheitið tæknifræðingur, sem er lögverndað. Í náminu er lögð áhersla á að byggja upp verkvit, fræðilega fagþekkingu og tengsl við atvinnulífið.
Tæknifræði er tilvalin fyrir þá sem vilja geta hafið starfsferil sinn strax að loknu BS námi. Nám í tæknifræði er hagnýtt nám sem opnar dyr að fjölbreyttum og spennandi störfum.
Tæknifræði og verkfræði eru nátengdar greinar og oft starfa tæknifræðingar og verkfræðingar hlið við hlið og takast á við sömu eða svipuð verkefni.
Hvar læri ég tæknifræði, hvernig er námið?
Við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík eða í Tæknifræðisetri Háskóla Íslands í Hafnarfirði.
Einnig hafa margir Íslendingar lært tæknifræði í Danmörku.
Í náminu er farið í grunnfög tæknifræðinnar sem byggist meðal annars á eðlisfræði, stærðfræði, teikningu, hönnun og forritun. Hægt er að sérhæfa sig á hinum ýmsu sviðum tæknifræðinnar. Helstu svið tæknifræðinnar eru: Byggingartæknifræði, rafmagnstæknifræði, vél- og orkutæknifræði, orku- og umhverfistæknifræði, iðnaðartæknifræði og mekatróník hátæknifræði.
Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærilegt próf. Mælt er með því að umsækjandi hafi lokið tilteknum einingafjölda í stærðfræði og eðlisfræði.
Þeir sem ekki uppfylla inntökuskilyrðin geta tekið undirbúningsnám hjá Háskólanum í Reykjavík eða Háskólabrú Keilis.
Nám í tæknifræði er góður undirbúningur fyrir áframhaldandi nám til dæmis í verkfræði.
Hvað gera tæknifræðingar?
Nám í tæknifræði skapar fjölbreytt atvinnutækifæri. Tæknifræðingar starfa í öllum geirum atvinnulífsins við stjórnun, eftirlit, ráðgjöf, framkvæmdir, verkefnastjórnun, hönnun og nýsköpun.
Tæknifræðingar starfa hjá öllum helstu fyrirtækjum landsins, stórum og smáum.
Áhugaverðir tenglar
Háskólinn í Reykjavík
Háskóli Íslands
Youtube rás Háskólans í Reykjavík
Youtube rás Háskóla Íslands