Félagafjöldinn er um sex þúsund og félagsgjald í VFÍ er lágt miðað við önnur stéttarfélög á Íslandi.

 

Mikilvægt er að kynna sér vel hvað hin ýmsu stéttarfélög eru raunverulega að bjóða. 
Hvaða þjónusta er í boði? Hversu hátt er félagsgjaldið? Og ekki síst - á ég samleið  með öðrum félagsmönnum, eru hagsmunir okkar sambærilegir? 

Verkfræðingafélag Íslands er fagfélag og kjarafélag verkfræðinga og tæknifræðinga á Íslandi. Félagið er lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna. - Með öðrum orðum; önnur stéttarfélög gera ekki kjarasamninga fyrir hönd verkfræðinga og tæknifræðina.

Það skiptir miklu máli að vera í traustu stéttar- og fagfélagi sem hefur langa sögu og tengingu inn í náms- og starfsumhverfi félagsmanna.

Löggilt starfsheiti - nám erlendis

VFÍ er umsagnaraðili um löggiltu starfsheitin verkfræðingur og tæknifræðingur og hjá félaginu er gríðarleg þekking á verkfræðinámi víða um heim sem tryggir að félagið getur liðsinnt háskólanemum varðandi val á framhaldsnámi.


 Lágt félagsgjald

Athugið að félagsgjald í VFÍ er lágt miðað við það sem gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Félagsgjaldið er föst upphæð, 3.750.- krónur á mánuði en ekki prósenta af heildarlaunum. Ungfélagar greiða ekki félagsgjald.

Dæmi um önnur félög: FÍH (0,9%), VR (0,7%), BHM (allt að 1,5%), Viska (0,95%), Efling (0,7%).

 Dæmi af launþega með 900 þúsund í heildarlaun á mánuði:

Félagsgjald í Verkfræðingafélaginu: Kr. 3.750.-
Félagsgjald í Visku (0,95%): Kr. 8.550.-
Mismunur á mánuði: Kr. 4.800.- Mismunur á ári: Kr. 57.600.- 

Heiðursfélagar, ungfélagar og félagar sem eru í fullu námi greiða ekki félagsgjöld. Félagar sem hafa náð 70 ára aldri eða eru hættir að vinna sökum aldurs greiða ekki félagsgjald.

Allir félagsmenn í VFÍ, hvort sem þeir greiða félagsgjald eða ekki, geta sótt rafrænt félagsskírteini sem veitir ýmiss konar afslætti.


Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Stéttarfélag byggingarfræðinga hafa gert þjónustusamning við skrifstofu VFÍ sem tryggir þeim þjónustu á sviði kjaramála.