Umsagnaraðili vegna félagsaðildar og starfsheitisleyfa.

Umsóknir um inngöngu í VFÍ og starfsheitisleyfi fara fyrir Menntamálanefnd VFÍ. Nefndin fylgist með gæðum náms í verkfræði og tæknifræði hér heima og erlendis.

Menntamálanefnd er ein fastanefnda VFÍ. Í 6. og 17. grein félagslaga eru verkefni nefndarinnar skilgreind.

6. gr. Innganga

Beiðni um inngöngu í félagið skal send stjórn félagsins skriflega. Menntamálanefnd VFÍ fær til umsagnar allar umsóknir um inngöngu í félagið og metur þær samkvæmt þeim reglum sem stjórnin hefur samþykkt um meðferð umsókna, þar sem m.a. skal kveðið á um lágmarkskröfur sem gera skal til menntunar nýrra félagsmanna. Ef umsögn menntamálanefndar er jákvæð ber stjórninni að veita umsækjanda aðild að félaginu.  Ef umsögn er neikvæð getur stjórnin ekki veitt viðkomandi aðild að félaginu, nema í undantekningartilvikum, t.d. ef viðkomandi getur ekki aflað tilskilinna gagna vegna styrjalda eða af stjórnmálalegum ástæðum. Í slíkum tilvikum þarf stjórnin að samþykkja inngöngu samhljóða. 

17. gr. Menntamálanefnd

Menntamálanefnd skal standa vörð um menntun verkfræðinga og tæknifræðinga og fylgjast með því námi sem í boði er hér á landi á því sviði. Menntamálanefnd skal vera stjórn félagsins til ráðuneytis um menntamál. Hún skal hafa frumkvæði að því hvernig félagið getur beitt áhrifum sínum gagnvart yfirvöldum menntamála í því skyni að ná markmiðum félagsins. Menntamálanefnd skal semja reglur um þær menntunarkröfur sem krafist er til inngöngu í félagið. Þessar reglur skulu hljóta staðfestingu stjórnar og skulu síðan gefnar út. Stjórn VFÍ skipar fulltrúa í Menntamálanefnd til tveggja ára í senn. Menntamálanefnd skal skipuð minnst þremur tæknifræðingum og fjórum verkfræðingum. Aðeins þeir sem hafa leyfi ráðherra til þess að kalla sig tæknifræðing eða verkfræðing eru gjaldgengir til setu í Menntamálanefnd. Menntamálanefnd metur allar umsóknir um inngöngu í félagið sbr. 6. gr.

Starfsheitið verkfræðingur - Reglur um mat á umsóknum

Upplýsingar eru á vef Stjórnartíðinda.

Starfsheitið tæknifræðingur - Leiðbeiningar vegna umsókna.