Aðalfundur VFÍ 2025
Haldinn í Verkfræðingahúsi - Steymt verður frá fundinum.
Þriðjudaginn 29. apríl kl. 17 í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9.
Aðalfundur Verkfræðingafélags Íslands verður haldinn 29. apríl kl. 17:00. Fundurinn verður í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9. Félagsmenn sem vilja tengjast í fjarfundi eru beðnir um að skrá þátttöku með því að senda póst á: tilkynningar@verktaekni.is í síðasta lagi kl. 13 á aðalfundardegi. Þeir sem skrá sig munu fá hlekk á fundinn í tölvupósti. Ársskýrsla ásamt ársreikningi 2025 verður þá einnig birt á vef VFÍ.
Samkvæmt félagslögum átti að skila framboðum í stjórnir félagsins og tillögum sem leggja á fyrir aðalfund fyrir 15. febrúar.
Sjálfkjörið er í stjórnir félagsins og verður kjöri lýst á fundinum.
Samkvæmt reglugerðum sjóða VFÍ á að leggja þær fyrir á aðalfundi félagsins. Engar breytingar eru lagðar til á reglugerðunum.
Lagabreyting
Stjórn mun leggja fram lagabreytingu á fundinum þess efnis að felld verði niður reglan um sex ára hámarkssetu í stjórnum félagsins. (Sbr. 11., 12. og 13. grein félagslaga).
Rökstuðningur: Stjórn telur nægilegt aðhald í að umboð stjórnarmanna sé endurnýjað í kosningum á tveggja ára fresti. „Sex ára reglan" hefur einnig gilt um setu í stjórnum sjóða félagsins. Reynslan hefur sýnt að reglan hefur valdið því að mikilvæg þekking og reynsla tapast. Við ákvarðanir stjórna er mikilvægt að þekkja til fordæma og sögunnar í rekstri sjóðanna.
Breytingar á lagagreinum
Hér fyrir neðan má sjá lagagreinarnar sem tillaga stjórnar nær yfir. - Yfirstrikaður texti fellur niður verði tillaga stjórnar samþykkt.
11. gr. Stjórn
Stjórn stýrir málefnum félagsins milli félags- og aðalfunda. Stjórnin sér til þess, að skipulag og starfsemi félagsins sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög félagsins. Stjórn tryggir að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Stjórn tekur allar meiriháttar ákvarðanir sem snúa að fjármálum félagsins. Stjórn fylgist með störfum deilda sem eru eða kunna að verða starfræktar. Stjórn skal ráða framkvæmdastjóra og fela honum daglegan rekstur skrifstofu félagsins, sbr. 24. gr.
Í stjórn sitja:
- Formaður kosinn á aðalfundi til tveggja ára í senn.
- Tveir meðstjórnendur, sem eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára, sinn meðstjórnarmaðurinn annað hvert ár.
- Tveir meðstjórnendur, formaður Kjaradeildar og formaður Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi hverju sinni. Við forföll tekur varaformaður sæti síns formanns en annars varamaður.
- Tveir varamenn, kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, sinn varamaðurinn annað hvert ár. Eru þeir varamenn allra stjórnarmanna.
Endurkjör formanns er heimilt tvisvar. Samfelld stjórnarseta meðstjórnenda og varamanna getur mest verið 6 ár. Kosning stjórnarmanna fer fram með bréflegum eða rafrænum hætti í aðdraganda aðalfundar. Aðeins félagsmenn viðkomandi deilda njóta kosningaréttar að því er varðar meðstjórnendur skv. 3. tl., sbr. 12. og 13. gr. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnin setur sér starfsreglur í samræmi við lög þessi og skulu þær vera aðgengilegar félagsmönnum.
Stjórnin heldur fundi þegar formaður ákveður eða einhver stjórnarmanna óskar. Formaður stýrir fundum.
Stjórnarmenn skulu vera fjár síns ráðandi og mega ekki hafa á sl. 5 árum hlotið refsidóm. Missi stjórnarmaður hæfi sitt tekur varamaður tafarlaust sæti hans. Við meðferð einstakra mála skal stjórnarmaður víkja sæti ef hann hefur þar verulegra hagsmuna að gæta sem farið geta í bága við hagsmuni félagsins.
12. gr. Kjaradeild
Kjaradeild er deild launþega innan VFÍ. Þeir félagsmenn einir, sem eru launþegar á grundvelli laga nr. 80/1938 ásamt síðari breytingum um stéttarfélög og vinnudeilur eða laga nr. 94/1986 ásamt síðari breytingum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, geta átt aðild að Kjaradeild. Aðeins þeir sem tilheyra deildinni eru kjörgengir og hafa atkvæðisrétt í kosningu til stjórnar deildarinnar.
Stjórn Kjaradeildar er skipuð fimm félagsmönnum, sem kosnir eru í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til tveggja ára í senn, þrír annað árið en tveir hitt árið. Varamenn í stjórn Kjaradeildar eru tveir kosnir til tveggja ára í senn, annar kosinn annað árið, hinn kosinn hitt árið. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum og setur sér starfsreglur sem stjórn VFÍ staðfestir. Formaður stjórnar Kjaradeildar skal sitja í stjórn VFÍ, sbr. 3. tl. 11. gr. Stjórn Kjaradeildar skal a.m.k. tvisvar á ári, halda stjórn VFÍ upplýstri um þau málefni deildarinnar sem máli kunna að skipta fyrir félagið, þ.m.t. um úthlutunarreglur, ávöxtunarleiðir og uppgjör sjóða. Samfelld seta í stjórn Kjaradeildar getur mest verið 6 ár. Stjórnarmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði 11. gr.
Hlutverk stjórnar Kjaradeildar er að:
- Annast gerð kjarasamninga og skipa samninganefndir eftir þörfum.
- Setja reglur fyrir sjóði sem samið er um í kjarasamningum.
- Skipa stjórnir fyrir sjóði sem samið er um í kjarasamningum.
- Hafa umsjón með og sinna málefnum félagsmanna Kjaradeildar VFÍ.
- Halda stjórn VFÍ upplýstri um fjárhagsstöðu þeirra sjóða sem henni tilheyra.
- Annast allsherjaratkvæðagreiðslur, sjá 22. gr.
- Hafa samráð um ráðningu yfirmanns kjarasviðs, sjá 24. gr.
Að því leyti sem ekki er mælt á annan veg í lögum þessum hefur Kjaradeild sjálfstæði um þau málefni sem um er fjallað í 12. gr.
13. gr. Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi
Deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi hefur umsjón með og sinnir málefnum stjórnenda og sjálfstætt starfandi félagsmanna innan VFÍ, svo og annarra sem kjósa að standa utan Kjaradeildar.
Meginverkefni deildarinnar er að stuðla að virkri samfélagsumræðu um málefni á áhugasviði félagsmanna meðal annars með því að standa fyrir opnum fundum.
Aðeins þeir sem tilheyra deildinni eru kjörgengir og hafa atkvæðisrétt í kosningu til stjórnar deildarinnar.
Stjórn Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi er skipuð þremur félagsmönnum, sem kosnir eru í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til tveggja ára í senn, tveir annað árið en einn hitt árið. Einn varamann skal kjósa í stjórn Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi til eins árs. Formaður er kosinn sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum og setur sér starfsreglur sem stjórn VFÍ staðfestir. Formaður stjórnar Deildar stjórnenda og sjálfstætt starfandi skal sitja í stjórn VFÍ, sbr. 3. tl. 11. gr. Samfelld seta í stjórn deildarinnar getur mest verið 6 ár. Stjórnarmenn skulu uppfylla hæfisskilyrði 11. gr. Stjórn deildarinnar skal halda stjórn VFÍ upplýstri um önnur málefni sem kunna að hafa þýðingu fyrir félagið.
Dagskrá aðalfundar VFÍ
1. Skýrsla stjórnar
um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Reikningar félagsins, þ.m.t. reikningar
deilda og sjóða.
3. Fjárhagsáætlun og ákvörðun félagsgjalda.
4. Tillögur félagsstjórnar.
5. Lýst kosningu aðalstjórnar.
6. Kjör endurskoðanda og skoðunarmanns.
7. Lýst kosningu í stjórn Kjaradeildar
félagsins.
8. Lýst kosningu í stjórn Deildar
stjórnenda og sjálfstætt starfandi.
9. Laun formanns og stjórnarmanna.
10. Laga- og reglugerðarbreytingar.
11. Önnur mál.