Lærdómur af risaverkefnum í Bretlandi
Gregory Taylor fjallar um risaverkefni í Bretlandi.
Á Samlokufundi fimmtudaginn 18. september mun Gregory Taylor fjalla um stærstu vandamál tengd risaverkefnum í Bretlandi síðastliðin 15 ár og hvaða lærdóm má draga af þeim. Hann mun skoða sameiginleg einkenni sem tengja þau saman og ræða síðan hvernig til tókst við að snúa þessari þróun við með því að þróa faglega þjónustu í kostnaðaráætlunum innan breska ríkisins. Að lokum verður farið yfir hvaða lærdóm megi draga af þessum verkefnum og hvað hefði mátt gera öðruvísi.
Fundurinn verður í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9 og í streymi. Fyrir þau sem mæta á staðinn verða samlokur og drykkir í boði VFÍ.
Gregory starfar á mörkum verkfræði, fjármála, verkefnastjórnunar og innkaupa og hefur yfir tíu ára reynslu í stærstu verkefnum Bretlands og Ástralíu, þar á meðal uppbyggingu og viðhalds innviða og veitna og smíði kafbáta og herskipa.
Áður en Gregory flutti til Íslands var hann yfirmaður kostnaðaráætlana hjá Forsætisráðuneytinu (e. Cabinet Office) í Bretlandi, þar sem hann hafði það hlutverk að samhæfa og sameina sérfræðiþekkingu í kostnaðaráætlunum milli ráðuneyta, með það að markmiði að samræma verklag og bæta innkaupaferla almennt. Gregory starfar nú hjá Verkís sem sérfræðingur í kostnaðaráætlunum.
Fyrirlesturinn verður á ensku.
Streymt verður frá fundinum og verður hlekkur settur hér inn þegar nær dregur.