Risaverkefni - Stærðin skiptir máli
Ákvarðanir, verkefnastjórnsýsla, áhætta og ábyrgð.
Þann 20. febrúar 2025 mun Verkfræðingafélag Íslands standa fyrir ráðstefnu um risaframkvæmdir á Íslandi og mikilvægi vandaðrar verkefnastjórnsýslu (e. Project governance).
Vinnuheiti ráðstefnunnar er: Risaverkefni - Stærðin skiptir máli.
Staður: Hilton Reykjavík Nordica, salur H-I.
Tími: Fimmtudagur 20. febrúar 2025 kl. 9-12.
Dagskráin verður auglýst fljótlega en við hvetjum félagsmenn og aðra sem áhuga hafa að taka daginn frá. Markmiðið er að leiða saman stjórnsýslu, atvinnulíf og fræðasamfélag.
Nánar um ráðstefnuna - tilgangur og markmið
Framundan eru risaverkefni á Íslandi. Til dæmis þá er í Samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 gert ráð fyrir heildarútgjöldum upp á 640 milljarða króna. Til viðbótar bætast við verkefni sem kunna að verða fjármögnuð með samvinnuverkefnum. Má þar nefna nýja Sundabrú og brú yfir Ölfusá.
Núverandi kostnaðaráætlun vegna uppfærðs Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hljóðar upp á 311 milljarða króna. Áfram mætti telja.
Hér er um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða og ef Samgöngusáttmálinn er tekinn sem dæmi er eðlilegt að almenningur hafi áhyggjur og óttist að risaframkvæmdir sem fram undan eru reynist jafnvel enn kostnaðarsamari en áætlanir gera ráð fyrir þegar upp er staðið.
Gagnstætt því sem gildir um nágrannaþjóðir okkar hefur ekki tekist að þroska djúpa umræðu um hvernig tryggja má að fjármunum almennings sé sem best varið. Þessu vill Verkfræðingafélag Íslands breyta. Gert er ráð fyrir að ráðstefnan sé fyrsta skrefið og í framhaldinu verði fleiri viðburðir um þetta mikilvæga málefni.
Félagið telur að frjór jarðvegur sé til staðar til að ræða umfangsmikil og kostnaðarsöm fjárfestingarverkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga og hvernig best verði staðið að tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út áætlaðan líftíma þeirra.
Verkfræðingafélagið mun hefja umræðuna með ráðstefnu 20. febrúar 2025 á Reykjavík Hilton Nordica. Markmiðið er að leiða saman stjórnsýslu, atvinnulíf og fræðasamfélag.
Af gefnu tilefni skal á það bent að markmiðið er ekki að gagnrýna hagsmunaaðila eða núverandi fyrirkomulag heldur að leiða fram mikilvæga þekkingu og stuðla að faglegri umgjörð og faglegum vinnubrögðum í framkvæmdum hér á landi.
Nánar tiltekið eru fyrirhuguð áhersluatrið ráðstefnunnar eftirfarandi:
• Umgjörð risaverkefna. - Óljós ábyrgð. Hvað sýna niðurstöður innlendra vísindarannsókna okkur um þetta?
• Áhrif framúrkeyrslu í risaverkefnum. - Áhrif á öll kerfi samfélags, jafnvel til margra ára.
• „Principal Agent Problem“ (Hætta ekki eigin fé, bera ekki ábyrgð).
• Samgöngusáttmálinn. (Ath. tekur yfir fjögur kjörtímabil, óvissa um aðkomu ríkisins).
• Project Governance – á íslensku: verkefnastjórnsýsla. – Hvað er það?
• Reynsla Norðmanna eftir breytingar á verkefnastjórnsýslu opinberra framkvæmda þar í landi. Norska fjármálaráðuneytið hefur verið í fararbroddi. Fá fyrirlesara úr norska fjármálaráðuneytinu.
• Íslensk fyrirtæki með reynslu frá Noregi?
• Reynsla annarra þjóða af framkvæmd risaverkefna.
• Verkefnavæðing samfélagsins. Rúmur þriðjungur hagkerfisins fer í gegnum verkefni. Stjórnskipulagið verður að ráða við þetta.
Tengiliður VFÍ vegna ráðstefnunnar: sigrun@verktaekni.is