Samlokufundur: Kynning á Advanced MPM náminu
Þroskakostur fyrir starfandi tæknifræðinga og verkfræðinga.
Á Samlokufundi fimmtudaginn 15. maí kl. 12-13 verður kynning á Advanced-MPM náminu við Háskólann í Reykjavík. Fundurinn verður í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9 og í streymi. Fyrir þau sem mæta á staðinn verða samlokur og drykkir í boði VFÍ.
Um hvað verður fjallað?
Við búum í heimi þar sem hlutir gerast hratt og krefjast lipurrar stefnufestu, fimrar nýsköpunar og djúps skilnings á mannlegu atferli og stjórnvisku. Samkeppnishæfni Íslands byggir á getu okkar til að undirbúa og leiða verkefni. Í þjóðfélagsumræðunni er oft vísað til svokallaðrar „innviðaskuldar" sem kallar á opinbera fjárfestingu upp á um 2.000 milljarða króna á næstu áratugum — og þá eru fjárfestingaverkefni einkageirans ótalin!
Meistaranám í verkefnastjórnun (MPM) við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík hefur fyrir löngu markað spor sín í sögu verkefnastjórnunar og atvinnulífs á Íslandi. Frá upphafi var námið hugsað sem þroskakostur fyrir starfandi tæknifræðinga og verkfræðinga. Náminu er ætlað að þroska einstaklinga sem geta tekist á við breytingar af fagmennsku. Námið kallar í senn fram skapandi og gagnrýna afstöðu til sjálfs síns og annarra — til teyma, skipulagsheilda og samfélags — ásamt því að beina sjónum að því nýjasta í faginu á heimsvísu.
Á fundinum munu forsvarsmenn námsins, Haukur Ingi og Helgi Þór, fjalla almennt um námið frá þessu sjónarhorni og kynna jafnframt athyglisverða uppfærslu: AMPM (Advanced MPM) – úrvalsmenntun fyrir tæknifræðinga og verkfræðinga sem vilja vaxa bæði persónulega og faglega, og mæta framtíðinni af djörfung sem afbragðsstjórnendur.
Hér er listi yfir nokkrar breytingar sem orðið hafa og varða námið:
Námskostnaður hefur lækkað um helming, námið er 80% á netinu, beitt er spegilkennslu þar sem þekkingu er miðlað í fyrirlestra á netinu en í staðarlotum eru færni og hæfni æfð. Námið nýtir tæknilega klíníska innsýn til að takast á við fólk og stjórnunarlegar áskoranir (teymi, starfsmannamál, samninga, deilur, áföll, menningarmun, o.s.frv.). Námið er kennt á ensku, en séu námskeið þess íslenskuð í anda Orðsifjanefndar VSÍ þá er listinn eftirfarandi (í sviga eru tilvísanir sem verða útskýrðar á fundinum) :
- Stefnumiðuð stjórnun og vöruþróun (UN/EC/Stanford EF/MIT/CDIO) — 6ECTS
- Gagnrýnin áætlanagerð og skipulagning (IPMA/PMI/APM/ISO) — 6ECTS
- Verkefnaforysta á klínískum forsendum (IPI, CPE-ABCD módel)
- Samþætt stjórnenda markþjálfun (ICF vottuð)
- Fjármál, samningatækni og verkefnisgát (Negotek, ICCB)
- Kvik verkefnateymi og aflfræði hópa (IPC tilraunastofa)
- Verkefnastjórnsýsla og sjálfbærni (UN viðmið)
- Samþætt verkefnabundin faghandleiðsla (EMCC bundin)
- Verkefnavöktun og verkefnaúttektir (OECD, EC, ILO viðmið)
- Verkefnabundin stjórnenda fagleiðbeining (APM)
- Breytinga- og straumlínustjórnun
- Döngun í verkefna væddum heimi (AI)
- Risaverkefni, verkefnastofnar og -verkefnaskrár (
- Verkefnabundin IPMA-C/B vottun (umsjón VSÍ/IPMA)