100 ára afmæli orðanefnda VFÍ

Vigdís Finnbogadóttir opnaði nýjan Íðorðabanka.

19. nóv. 2019

Nýverið var hátíðafundur í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá stofnun fyrstu orðanefndar Verkfræðingafélags Íslands. Fundurinn var haldinn í samvinnu við Árnastofnun. Við þetta tækifæri opnaði Vigdís Finnbogadóttir, sem er heiðursfélagi VFÍ, nýjan íðorðabanka. 

Í upphafi flutti Svana Helen Björnsdóttir formaður VFÍ ávarp. Hún sagði meðal annars: „Framlag þeirra sem hafa starfað í orðanefndum Verkfræðingafélagsins er einstakt hugsjónastarf. Öll störf orðanefndarmanna eru unnin í sjálfboðavinnu og hefur svo ávallt verið. Flestir hafa þeir starfað í nefndunum um margra áratuga skeið." Hér má lesa ávarp Svönu Helenar í heild.

Þá rakti Þorsteinn Þorsteinsson verkfræðingur sögu orðanefnda VFÍ, Ágústa Þorbergsdóttir sagði frá orðanefndarstarfi  og Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar flutti ávarp í lok fundar. 

Glærur Þorsteins.
Glærur Ágústu.

Í Íðorðabankanum eru fjölmörg sérfræðiorðasöfn, til dæmis í læknisfræði, rafmagnsverkfræði, efnafræði og stjórnmálafræði. Hægt er að leita að íslensku eða erlendu hugtaki og fá þýðingu þess á öðru máli. Í sumum söfnum eru einnig sýndar skilgreiningar hugtaka.