Áhættumat hjá Hjartarannsókn - 27. sep. 2016

Sjúkra- og styrktarsjóðir VFÍ hafa gert samning við Rannsóknarstöð Hjartaverndar um að bjóða sjóðfélögum áhættumat, fræðslu og forvarnaraðgerðir gegn hjartasjúkdómum. Næstkomandi fimmtudag, 29. september kl. 12-13, er sjóðfélögum boðið til kynningarfundar vegna átaksins. Fundurinn verður í Verkfræðingahúsi, Engjateigi 9.
Á fundinum mun Karl Andersen hjartasérfræðingur hjá Hjartavernd kynna átakið og svara spurningum. Áhættumat Hjartarannsóknar.

Líf og starf á Grænlandi - 13. sep. 2016

Það var vel mætt á Samlokufundinn í hádeginu í dag þar sem Birkir Rútsson, verkfræðingur, sagði frá reynslu sinni af því að búa og starfa á Grænlandi. Hann starfar hjá dönsku verkfræðistofunni Orbicon sem mun opna útibú hér á landi næsta vor og mun Birkir flytja til Íslands af því tilefni. Glærur frá fyrirlestrinum.

NIL fundur í Reykjavík - 9. sep. 2016

Dagana 7. - 9. september var haldinn norrænn launafundur verkfræðinga og tæknifræðinga, svokallaður NIL fundur sem haldinn er árlega. VFÍ og TFÍ voru gestgjafar að þessu sinni. Þema fundarins var „vinnumarkaður framtíðarinnar". Fjallað var sérstaklega um framleiðni, sveigjanleika og samkeppnishæfni.

Orlofsdvöl í vetrarfríum - 5. sep. 2016

Nú er hægt að sækja um dvöl í orlofshúsum VFÍ í vetrarfrísvikum grunnskólanna sem eru að þessu sinni tvær. Frá 20. – 27. október og 27. október – 3. nóvember 2016.
Frestur til að sækja um orlofsviku er til miðnættis 26. september. Úthlutun fer fram daginn eftir. Frádráttur er 30 punktar fyrir orlofsvikuna.

Sótt er um á orlofsvef félags með því að velja aðra hvora vikuna. Þá kemur upp umsókn þar sem valin er staðsetning og vikan sem óskað er eftir. (Aðeins er hægt að velja einn stað). Athugið að þegar umsókn hefur verið samþykkt, fær félagsmaður staðfestingu senda í stölvupósti. Úthlutað er eftir punktastöðu. 

Metfjöldi umsókna - 1. sep. 2016

Það stefnir í metfjölda umsókna um félagsaðild að VFÍ þetta árið. Á síðasta stjórnarfundi VFÍ fengu 33 nýir félagsmenn inngöngu í félagið, þar af sex ungfélagar. Á árinu 2015 voru 237 umsóknir samþykktar og að auki gengu 45 ungfélagar til liðs við félagið. Heildarfjöldi umsókna var þá mun meiri en árið á undan og hafa aldrei verið fleiri. - En það stefnir semsagt í að það met verði slegið. (Mynd: Háskólinn í Reykjavík).