Aðlögunarhæfni á krefjandi tímum

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2020.

27. ágú. 2020

svana_helenFyrr í sumar lét Verkfræðingafélag Íslands (VFÍ) gera könnun til að meta stöðu félagsmanna á tímum COVID-19. Niðurstöðurnar eru um margt áhugaverðar. Það sem stendur upp úr er hversu félagsmönnum gekk almennt vel að takast á við krefjandi aðstæður og sinna verkefnum sínum í fjarvinnu. Augljóst er að þessi faraldur hefur kennt okkur margt og gera má ráð fyrir að vinnumarkaðurinn muni breytast varanlega. Þannig má gera ráð fyrir því að fjarvinna og sveigjanleiki vinnutíma verði meiri. Slíkum breytingum fylgja áskoranir sem nauðsynlegt er að hefja umræðu um.

Ef litið er á helstu niðurstöður sem varða afkomu félagsmanna VFÍ beint, þá fóru 14% í hlutastarf vegna COVID-19 og 2,5% misstu vinnuna. Þess má geta að í júlímánuði var atvinnuleysi í heild á landinu 7,9% en var á sama tíma 4,5% hjá félagsmönnum VFÍ. Það er óvenjuhátt því atvinnuleysi meðal verkfræðinga og tæknifræðinga hefur að jafnaði mælst um og innan við 2%. Langstærstur hluti, eða 81%, varð ekki fyrir tekjuskerðingu. Grunnlaun lækkuðu hjá 5,7% svarenda.

Ríflega 83% vann fjarvinnu að einhverju leyti. Nærri helmingur var í fjarvinnu meira en 2/3 hluta tímans. Fjarvinnan var valfrjáls hjá 26%. Tæp 60% fannst auðvelt að uppfylla vinnuskyldu í fjarvinnu sem þýðir að 40% fannst í meðallagi eða fremur erfitt að uppfylla vinnuskylduna. Ef litið er á afköst þá telja um 30% þau vera minni í fjarvinnu.

Verkefnaskortur eða tæknileg vandamál voru ekki ástæða fyrir vandkvæðum við vinnu frá heimili og vinnuaðstaða almennt viðunandi. Aftur á móti þurfti nærri helmingur að gæta barna sem annars hefðu verið í leikskóla eða grunnskóla. Sömu sögu er að segja þegar spurt var um truflun vegna aðstoðar við heimalærdóm. Tæp 40% svarenda búast við að fjarvinna verði meiri og vinnutími sveigjanlegri í framtíðinni.

Heimavinnustyrkir í stað samgöngustyrkja?

Breyttar aðstæður hafa kennt okkur margt en vekja einnig margar spurningar. Til dæmis er fjarvinna ekki að öllu leyti jákvæð. Hjá hluta fólks leiðir hún til félagslegrar einangrunar og kvíða yfir því að geta ekki uppfyllt vinnuskyldu og að afköst séu ekki nægileg. Þá þarf einnig að ná samkomulagi um að hve miklu leyti vinnuveitendur eigi að standa straum af kostnaði við vinnuaðstöðu starfsmanna heima fyrir. Dæmi eru um að fyrirtæki séu nú þegar farin að greiða styrki vegna fjarvinnu sambærilega samgöngustyrkjum.

Verkfræðingafélagið mun í haust gera samanburðarkönnun til að meta hvernig félagsmenn takast á við breyttar aðstæður til lengri tíma. Gera má ráð fyrir að viðhorfin séu önnur þegar horft er fram á viðvarandi ástand í stað áhrifa fyrstu bylgju COVID-19 sem eflaust margir litu á sem átaksverkefni sem myndi líða hjá.

Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar hjá systurfélögum VFÍ á Norðurlöndunum og eru niðurstöður að langstærstum hluta sambærilegar. Könnun VFÍ sýnir að tæknimenntun gefur forskot þegar staðið er frammi fyrir breyttum og krefjandi aðstæðum. Tæknimenntað fólk er iðulega skapandi í hugsun, er vant því að hugsa í lausnum og sjá leiðir til nýrra tækifæra og nýsköpunar. Tæknimenntun má samþætta við ýmiss konar aðra menntun og listir. Hún getur aukið aðlögunarhæfni og gefið fólki tækifæri til að skapa sér nýjan starfsgrundvöll.

Þeir sem vilja kynna sér betur niðurstöður könnunarinnar geta nálgast þær á vefsvæði félagsins: www.vfi.is.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.