• ana_undirskrift

ANE og norrænir tækniháskólar vinna saman

ANE (Association of Nordic Engineers).

28. jún. 2018

Tækniháskólar og félög verkfræðinga og tæknifræðinga á Norðurlöndunum munu vinna saman að því að mæta þeirri öru tækniþróun sem mun hafa gríðarleg áhrif á vinnumarkað og samfélögin í heild.

ANE (Association of Nordic Engineers) og NORDTEK, Samtök tækniháskóla á Norðurlöndunum og verkfræðideilda hafa undirritað samstarfssamning. Markmiðið er að nútímavæða og efla kennslu á sviði vísinda og tækni, tryggja nægt framboð af hæfu tæknimenntuðu fólki og endurmenntun þeirra sem þegar hafa lokið prófgráðu í tæknigreinum. 

„Með því að vinna saman getum við sigrast á vandamálum í nútímasamfélagi. Það mun einnig efla nýsköpun með því að stuðla að nægu framboði af öflugum, tæknimenntuðum starfskrafti og stuðla að markvissri hæfniþróun þeirra sem nú þegar eru á vinnumarkaði. Einnig munum við treysta samvinnu við atvinnulífið þar sem tekið er tillit til þarfa þess og reynt að tryggja framboð af hæfu starfsfólki,"sagði Trond Markussen, forseti ANE.

Með sameiginlegu átaki vilja samtökin stuðla að hæfniþróun sem tekur mið af þeim tæknibreytingum sem eru að verða til dæmis á sviði sjálfvirkni og gervigreindar. Yngri kynslóðin er í brennidepli þar sem unnið verður að því að nám í tæknigreinum verði í tak við nýja tíma og áskoranir samfélagsins. 

„Eins og Bertrand Russel sagði, það eina sem mun bjarga mannkyninu er samvinna. Ég er ánægð að sjá að ANE og NORDTEK hafa það sameiginlega markmið að koma norrænni verkfræðimenntun á framfæri á alþjóðavísu og faggreininni sem slíkri í samfélaginu. Þessi samningur styrkir böndin á milli háskólanna og fagfélaganna og með samstarfi við háskóla í Eystrasaltsríkjunum er ég fullviss um að þessi heimshluti mun hafa alla möguleika á að verða í fararbroddi í þeirri stafrænu byltingu sem framundan er," sagði Riitta Keiski, forseti NORDTEK.

Samstarfssamningurinn var undirritaður á árlegri NORDTEK ráðstefnu sem haldin var 8. júní í Riga.
NORDETK er samstarfsvettvangur rektora og verkfræðideilda tækniháskóla á Norðurlöndunum. Innan þeirra vébanda eru 27 háskólar og yfir 120 þúsund nemendur, kennarar og vísindamenn.

ANE er fulltrúi  yfir 340.000 verkfræðinga og tæknifræðinga á Norðurlöndum. Innan ANE vinna saman félög verkfræðinga og tæknifræðinga á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku.