CRI hf. hlaut Teninginn
Carbon Recycling International er nýr handhafi Teningsins.
Carbon Recycling International - CRI hf. hlaut Teninginn, viðurkenningu Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni eða framkvæmd, þegar hann var afhentur á Degi verkfræðinnar sem var á Hilton Reykjavík Nordica 21. október. CRI hlaut Teninginn fyrir þróun ETL tækninnar og verkfræðilega hönnun verksmiðju í Anyang borg í Henan héraði í Kína. Dagur verkfræðinnar var sem fyrr mjög vel sóttur og fullt hús. Á myndinni eru frá vinstri: Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ, hópur starfsmanna frá CRI hf. og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti Teninginn.
Teningurinn - verkfræðilegur verðlaunagripur
Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á vel útfærðum og áhugaverðum verkefnum sem tæknifræðingar og verkfræðingar vinna að. Hver dómnefndarmaður gaf einkunn fyrir hvert viðmið, sem eru alls sex talsins, og það verkefni sem hlaut hæstu meðaltals einkunn hreppti verðlaunin.
Fyrri handhafar Teningsins
Carbfix 2019.
Controlant 2020.
Verkfræðilegur verðlaunagripur
Verðlaunagripurinn, sem var frumsýndur á Degi verkfræðinnar, hefur vakið verðskuldaða athygli. Hönnuðir eru Narfi Þorsteinsson og Adrian Rodriques.