Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar

UNESCO: 4. mars er dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar.

27. feb. 2020

UNESCO hefur ákveðið að 4. mars ár hvert verði alþjóðlegur dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar. Með þessari ákvörðun er vakin athygli á mikilvægu framlagi verkfræðinnar og verkfræðinga til sjálfbærrar þróunar og til að takast á við þær miklu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir. Alþjóðlegur dagur UNESCO hvetur til samtals atvinnulífs og stjórnvalda og stuðlar að því að bestu verkfræðilegu lausnir séu ræddar og komið í framkvæmd. 

Markmið dagsins verður einnig að vekja athygli á verkfræðinni sem starfsgrein og hvernig hún felur í sér möguleika á að breyta heiminum til hins betra. Verkefnin eru næg á heimsvísu. Tryggja þarf öllum jarðarbúum aðgang að hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu, endurnýjanlega orku auk annarra grunnþarfa. Samhliða öllu þessu þarf að takast á við loftslagsbreytingar, verndun umhverfis, sífellt stæri borgir og nýja tækni til dæmis á sviði gervigreindar.

Tækifærin sem skapast með því að halda hátíðlegan Dag verkfræði og sjálfbærrar þróunar eru margvísleg. Meðal annars að eiga samskipti við ungt fólk sem stendur frammi fyrir því að velja sér nám og starf til framtíðar. Skilaboðin eiga að vera: „Ef þú vilt breyta heiminum til hins betra, þá skaltu verða verkfræðingur."

Hér má lesa um WED (World Engineering DAY)

Sjálfbær þróun

Sjálfbær þróun mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld fyrir alla jarðarbúa til langs tíma. Markmið sjálfbærrar þróunar er að koma á sjálfbærni í samfélaginu í heild og á jörðinni. Sjálfbærni er markmið sjálfbærrar þróunar.

Sjálfbær þróun byggir á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri. Hugtakið er notað í hnattrænu samhengi en ekki um einstakar einingar án samhengis við hið hnattræna.

Hér má lesa meira um sjálfbæra þróun.