Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar

UNESCO: 4. mars er Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar.

4. mar. 2021

Árið 2019 ákvað UNESCO að 4. mars yrði alþjóðlegur Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar. - World Engineering Day (WED). Var haldið upp á þennan dag í fyrsta sinn á síðastliðnu ári. Með þessari ákvörðun var vakin athygli á mikilvægu framlagi verkfræðinnar og verkfræðinga til sjálfbærrar þróunar og til að takast á við þær miklu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir. Alþjóðlegur dagur UNESCO hvetur til samtals atvinnulífs og stjórnvalda og stuðlar að því að bestu verkfræðilegu lausnir séu ræddar og komið í framkvæmd.

Í dag, fimmtudaginn 4. mars, verður viðburður á vegum UNESCO: Engineering for A Healthy Planet, Celebrating the UNESCO Engineering Report.

Í tilefni dagsins birtist grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur í Morgunblaðinu:

Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar 

svana_helenÁrið 2019 ákvað UNESCO að 4. mars yrði alþjóðlegur Dagur verkfræði og sjálfbærrar þróunar, þ.e. World Engineering Day (WED). Var haldið upp á daginn í fyrsta sinn á síðasta ári. Með þessari ákvörðun var vakin athygli á mikilvægu framlagi verkfræðinnar og verkfræðinga til sjálfbærrar þróunar og til að takast á við þær miklu áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir.

Markmið þessa dags er einnig að vekja athygli á verkfræðinni sem starfsgrein og hvernig hún felur í sér möguleika á að breyta heiminum til hins betra. Verkefnin eru næg á heimsvísu. Tryggja þarf öllum jarðarbúum aðgang að hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu, endurnýjanlega orku auk annarra grunnþarfa. Samhliða öllu þessu þarf að takast á við loftslagsbreytingar, verndun umhverfis, sífellt stækkandi borgir og nýja tækni, til dæmis á sviði gervigreindar.

Í ár er athyglinni beint að nýrri skýrslu UNESCO; Engineering for Sustainable Development: Delivering on the Sustainable Development Goals. Í skýrslunni er fjallað um hversu mikilvægu hlutverki verkfræðin gegnir við að ná markmiðum um sjálfbæra þróun. Bent er á að til að bregðast við skorti á verkfræðingum verði að tryggja nám án aðgreiningar og jafnrétti innan verkfræðinnar. Vakin er athygli á nýjum verkfræðilegum lausnum sem nýtast við að að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Skýrslan greinir einnig þær framfarir sem hafa orðið og áskoranir í menntun verkfræðinga og þar eru teknar saman upplýsingar um þróun verkfræðinnar á einstökum svæðum. Að lokum eru í skýrslunni tillögur um hvernig hægt er að þróa verkfræðina í þágu sjálfbærnimarkmiðanna og kallað er eftir alheimssamvinnu ólíkra hagsmunaaðila til að stuðla að þróun verkfræðinnar í þessum tilgangi.

Tækifærin sem skapast með því að halda hátíðlegan Dag verkfræði og sjálfbærrar þróunar eru því margvísleg. Meðal annars að hvetja ungt fólk til dáða og benda á þá fjölbreyttu möguleika sem verkfræðin býður upp á fyrir þau sem vilja hafa áhrif til góðs.

Verkfræðingafélag Íslands hefur þegar tekið heimsmarkmiðin til skoðunar og vill leggja sitt af mörkum. Félagið er stærsta og öflugasta félag tæknimenntaðra á Íslandi með um 4.800 félagsmenn. Starfsemi Verkfræðingafélagsins er mikilvæg, ekki aðeins félagsmönnum, heldur einnig íslensku samfélagi sem farvegur og skynsöm rödd tækniframfara sem framtíðarlífsgæði okkar byggjast á.

Upplýsingar um Dag verkfræði og sjálfbærrar þróunar má nálgast á vefslóðinni: worldengineeringday.net.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands

Viðburður á vegum UNESCO

Í dag, fimmtudaginn 4. mars, verður viðburður á vegum UNESCO: Engineering for A Healthy Planet, Celebrating the UNESCO Engineering Report.

Sjálfbær þróun

Sjálfbær þróun mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld fyrir alla jarðarbúa til langs tíma. Markmið sjálfbærrar þróunar er að koma á sjálfbærni í samfélaginu í heild og á jörðinni. Sjálfbærni er markmið sjálfbærrar þróunar.

Sjálfbær þróun byggir á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri. Hugtakið er notað í hnattrænu samhengi en ekki um einstakar einingar án samhengis við hið hnattræna.

Hér má lesa meira um sjálfbæra þróun.