Farsælt samstarf við Vísindasmiðju HÍ

Þróun fræðsluverkefna á sviði vísinda og tækni.

8. jan. 2020

Verkfræðingafélag Íslands og Vísindasmiðja Háskóla Íslands hafa endurnýjað samstarfssamning sinn og hyggjast á árinu vinna saman að tilraunaverkefni í samstarfi við félagsmiðstöðvar um þróun fræðsluverkefna á sviði vísinda og tækni.

Í frétt á vef Háskóla Íslands kemur fram að Verkfræðingafélagið og Vísindasmiðjan hafa undanfarin ár unnið sameiginlega að því markmiði að efla áhuga ungs fólks á vísindum, tækni og nýsköpun og efla jafnt kennara sem nemendur á því sviði. Formlegt samstarf hófst haustið 2018 og þá var hafist handa við að útbúa sérstakt fræðsluefni fyrir kennara og nemendur um forritun. Árið eftir var sérstök áhersla lögð á fræðsluverkefni fyrir skóla um loftslagsbreytingar og hverfist það verkefni um notkun þekkingar til að finna lausnir tengdar orkunotkun. Nú hefur samstarfssamningur verið staðfestur þriðja árið í röð og var hann undirritaður í upphafi nýs árs af Svönu Helen Björnsdóttur, formanni Verkfræðingafélagsins, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.

Þess má geta að Vísindasmiðjan er á Fjölskyldudegi verkfræðinnar sem haldinn er í ágúst ár hvert og hefur jafnframt haldið námskeið í tækjaforritun fyrir börn félagsmanna VFÍ. 

Svana Helen, formaður VFÍ, heimsótti nýverið Vísindasmiðjuna til að kynna sér starfsemina og þau verkefni sem VFÍ hefur lagt lið.