• ane_stjorn

Finnar taka þátt í ANE

Finnsk systurfélög VFÍ eru nú aðili að ANE.

13. des. 2019

Félög verkfræðinga og tæknifræðinga í Finnlandi verða aðilar að ANE (Association of Nordic Engineers) frá og með 1. janúar 2020. ANE er samstarfsvettvangur sem var settur á laggirnar árið 2007 af félögum verkfræðinga og tæknifræðinga í Danmörku, Svíþjóð og öðru af tveimur félögum í Noregi. Hlutverk ANE er að gæta hagsmuna norrænna verkfræðinga og tæknifræðinga bæði innan Norðurlandanna og í alþjóðlegu tilliti. Með aðild Finnlands verða um 500 þúsund félagsmenn innan ANE. 

VFÍ varð aðili að ANE í ársbyrjun 2018. 

ANE vinnur að því að auka sýnileika og áhrif verkfræðingastéttarinnar.  Í gegnum ANE miðla félögin þekkingu sín á milli og vinna að ákveðnum verkefnum. Af nýlegum verkefnum má til dæmis nefna stefnumótun varðandi siðferði og gervigreind. Einnig gerðu samtökin samnorræna könnun á sviði hæfniþróunar. 

Trond Markusson formaður ANE og norska félagsins NITO segir samvinnu norrænu félaganna skipta sífellt meira máli og þátttaka finnsku félaganna styrki samtökin umtalsvert. „Innan ANE vinnum við að því að takast á við sameiginlegar áskoranir. Sem dæmi er Finnland frumkvöðull á sviði gervigreindar, sem hefur einmitt verið eitt af áhersluatriðum ANE undanfarin ár. Við getum því lært hvort af öðru og saman erum við sterkari." 

Landslag félaganna í Finnlandi er öllu flóknara en á Íslandi. Engineers Finland var stofnað í maímánuði 2019 en innan þeirra samtaka eru öll félög verkfræðinga og tæknifræðinga í Finnlandi. Þau eru: Academic Engineers and Architects in Finland, TEK, Technical Association of Finland, TFiF, Engineers in Finland, DIFF of Union of Professinal Engineers in Finland, IL. Innan félaganna eru einnig sérfræðingar í öðrum tæknigreinum en verkfræði og tæknifræði.

Nánari upplýsingar á vef ANE.

Myndin er tekin á stjórnarfundi ANE í desember 2019.