Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál
Stjórn VFÍ hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda.
Stjórn Verkfræðingafélags Íslands hefur skilað umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda um Grænbók um húsnæðis- og mannvirkjamál. Í kynningu Innviðaráðuneytis segir að með Grænbókinni sé lagður grunnur að umræðu um núverandi stöðu húsnæðis- og mannvirkjamála, lykilviðfangsefni, framtíðarsýn og áherslur við gerð stefnu til komandi ára.Óhætt er að segja að Verkfræðingafélagið setji fram afdráttarlausa gagnrýni á Grænbókina. Tekur gagnrýni félagsins fyrst og fremst til þess að ekki sé tekið nægilega á fúski í byggingariðnaðinum. Í umsögninni segir meðal annars:
Einfaldara fyrir byggingaraðila en hætta á göllum eykst.
„Því miður hefur sú vegferð, sem hafin er í þessa veru, hugsanlega einfaldað ferla fyrir byggingaraðila en hún hefur stóraukið hættu á göllum í byggingariðnaðinum og ekki bara aukið áhættu á þeim heldur eru gallar í byggingariðnaði himinhrópandi í dag, þó vissulega finnist margar jákvæðar undantekningar."
Neytendavernd ábótavant.
Og á öðrum stað er gagnrýnt að ekki sé hlustað á sérfræðinga og neytendavernd sé ábótavant:
„Hins vegar er hvergi minnst á gagnrýni helstu fræðimanna Íslendinga í byggingarmálum á aðgerðir yfirvalda á því sviði. Þessir aðilar eru einhuga í sinni afstöðu og hafa sett fram harða gagnrýni á opinberum vettvangi um margra áratuga skeið. Á þetta hefur ekki verið hlustað né heldur gagnrýni neytenda; kaupendur húsnæðis, sem hafa margoft lýst sárri og kostnaðarsamri reynslu sinni af þjónustu byggingariðnaðarins. Þar hefur ekki verið kvartað yfir seinvirkum ferlum heldur skorti á opinberu eftirliti, himinhrópandi skorti á afskiptum opinberra stofnana, sem eiga að sinna byggingarmálum og neytendavernd, af göllum sem setja ævisparnað eigenda húsnæðis í hættu."
„Allar breytingar undanfarinna ára hafa stefnt að því að draga úr raunverulegu faglegu eftirliti í byggingargeiranum og auka „pappírseftirlit“ sem enginn fylgir eftir. Um leið og pappírsstaflarnir af svokölluðum gæðaskjölum hlaðast upp, hlaðast upp stefnurnar vegna gallamála hjá dómstólunum. Með Grænbókinni er enn róið á sömu mið."
„Ástandið er grafalvarlegt. Það leka allir gluggar í heilu hverfunum á Íslandi og ekkert í Grænbókinni mun koma í veg fyrir að slíkt haldi áfram. Það má færa sterk rök fyrir því að að aðgerðir stjórnvalda í byggingarmálum hafi ýtt undir slíka þróun fremur en hitt."
Umsögn Verkfræðingafélags Íslands.
Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.