• Húsið á Engjateigi 9 séð úr lofti.

Hækkun mótframlags í lífeyrissjóði

Heildariðgjald verður 14%.

4. júl. 2017

Samið var um hækkunina í síðustu kjarasamningum. Gagnvart félagsmönnum VFÍ sem starfa á almennum markaði er það annars vegar samningur við Samtök atvinnulífsins (SA) og hins vegar Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV). Framlag launagreiðenda verður 10% í stað 8,5% áður og heildariðgjaldið því 14%.

Framlag launagreiðenda hækkar aftur um 1,5% þann 1. júlí 2018 og verður þá 11,5% eins og hjá starfsmönnum ríkisins. Iðgjald launafólks verður áfram 4% og heildariðgjaldið 15,5%.
Samkvæmt kjarasamningum eiga sjóðfélagar að geta ráðstafað heildariðgjaldi umfram 12% í séreignarsparnað í stað samtryggingar, svokallað tilgreinda séreign. Samþykktir lífeyrissjóða hafa verið uppfærðar til samræmis við þetta.

Lífsverk og Almenni lífeyrissjóðurinn

Stærstur hluti verkfræðinga greiðir í Lífsverk lífeyrissjóð en tæknifræðingar eiga flestir aðild að Almenna lífeyrissjóðnum.

Iðgjaldi sjóðfélaga Lífsverks sem er umfram 10% verður ráðstafað í séreign viðkomandi, sem er engin breyting frá því sem verið hefur, en hækkar með auknu mótframlagi. Sjóðfélagi getur óskað eftir því að allt iðgjaldið eða stærri hluti þess renni til samtryggingar.  

Sama gildir um Almenna lífeyrissjóðinn, ekki þarf að gera sérstakan samning við sjóðinn vegna tilgreindrar séreignar.  Ástæða þess er sú að sjóðfélagar Almenna greiða nú þegar að lágmarki þriðjung af skylduiðgjaldi í séreignarsjóð og ef mótframlagið hækkar fer það einnig í séreignarsjóð.