• pall_gislason

Hagsmunir og velferð í umhverfismálum

Grein eftir Pál Gíslason formann VFÍ. Morgunblaðið 28. október 2017.

30. okt. 2017

Eftirfarandi grein eftir Pál Gíslason formann VFÍ birtist í Morgunblaðinu 28. október sl.

Hagsmunir og velferð í umhverfismálum

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa fjölmiðlar hér á landi fært okkur fréttir af ýmsum verkefnum sem nú eru í gangi.  Þar er meðal annars um að ræða virkjanir, fiskeldi og verksmiðjur auk framkvæmda sem munu treysta innviði eins og samgöngur og orkudreifingu. Mikið hefur verið lagt út af neikvæðum umhverfisáhrifum ýmissa framkvæmda, þar sem byggt er á rökum og skoðunum,  sem við fyrstu sýn virðast mikilvægt innlegg, enda jafnan gengið út frá ákveðnum og gefnum umhverfissjónarmiðum. En er allt sem sýnist?

Ég hef ákveðið að setja hér á blað hugleiðingar um þessi mótmæli og andstöðu, sem ég er reyndar ekki viss um að séu svo umhverfisvæn þegar á allt er litið.

Áherslur fjölmiðla virðast vera að kynna mótrök og dugnað einstaklinga og samtaka við að mótmæla áformum um framkvæmdir og finna þeim allt til foráttu, frekar en fjalla til jafns um jákvæðu áhrifin. Bent hefur verið á að fossar missi töfra sína ef vatnið er minnkað í þeim vegna virkjana, hraun eða aðrar landslagsheildir skerðist ef sést í rafmagnslínur nálægt þeim, fjölfarnir hálendisvegir eyðileggi upplifun á öræfum ef þeir eru lagfærðir þannig að þeir líkist í raun vegum.

Þetta eru auðvitað allt góð og gild rök, ef við getum einfaldað heimsmyndina þannig að litið sé framhjá þeim ógnum sem mengun, loftslagsbreytingar og ágangur manna eru gagnvart okkar umhverfi. Í umhverfismálum stendur mannkynið frammi fyrir ögrunum sem hvorki fara í manngreinarálit né virða landamæri.

Á ráðstefnu nýverið sagði Christine Lagarde framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að ef ekki tækist að ná samstöðu um raunhæf viðbrögð við þessum ógnum þá væri framtíðin dökk. Í frétt RUV voru orð hennar þýdd þannig „að eftir 50 ár yrðum við ristuð, steikt og grilluð“.

Við sem þjóð þurfum hugleiða þessi orð og velta fyrir okkur hvort við getum haldið áfram að meta á sama hátt áhrif einstakra framkvæmda út frá staðbundnum mælikvörðum á ásýnd landsins eða tilfinningum.

Miðað við þróun mála þá tel ég einsýnt að við þurfum að breyta hugsun okkar og líta meira til stærri  umhverfishagsmuna.

Mat á fegurð fossa er persónumiðað og tæplega hægt að tengja það við vatnsmagn, enda  þekktustu fossar jafn vinsælt myndefni í vorleysingum og í þurrkatíð.

Eins má benda á að endurbætur vega stuðla oftast að minni eldsneytiseyðslu og minna dekkjasliti, sem þýðir auðvitað að umhverfisáhrif verða síður skaðleg en ella. Fyrir utan þá staðreynd að með betri vegum á hálendinu dregur úr líkum á utanvegaakstri.

Á sama hátt þurfum við að minnast þess að álframleiðsla drifin af íslenskri vatnsorku er mun umhverfisvænni en ef framleiðslan á sér stað í landi þar sem raforka er framleidd með jarðefnaneldsneyti. Þessi rök hafa ekki átt upp á pallborðið hjá hörðustu andstæðingum álvera.

Í umhverfismálum erum við ekki eyland og við þurfum að meta umhverfisáhrif verkefna með það í huga, til jafns við eða jafnvel frekar en að gæta eingöngu að staðbundnum tilfinningarökum.

Verkfræðingafélag Íslands hefur á undanförnum misserum staðið fyrir umræðufundum um umhverfismál, undirbúning og mat framkvæmda. Þessir fundir hafa mælst vel fyrir og verið fjölsóttir enda gagnlegur fróðleikur verið dreginHagsn fram og reynt að gæta þess að fulltrúar mismunandi sjónarmiða eigi sína fulltrúa. Félagið mun halda áfram á þeirri braut, enda mikilvægt að umræðan sé heildstæð, vönduð og fagleg.

Höfundur er verkfræðingur og formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Greinin sem pdf skjal.