• Isl_4-1-

Hálendisþjóðgarður - umsögn VFÍ

Nauðsynlegt að huga bæði að verndun og nýtingu.

2. feb. 2021

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskaði eftir umsögnum um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð. VFÍ hafði áður skilað inn tveimur umsögnum. Fyrst í október 2019 um verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og í janúar 2020 þegar frumvarpsdrögin voru kynnt.

Í umsögninni segir meðal annars:
„VFÍ telur nauðsynlegt að huga bæði að verndun og nýtingu við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Stofnun þjóðgarðs getur haft ýmis jákvæð áhrif en að sama skapi þarf að tryggja að sjálfbær þróun íslensks samfélags verði ekki hindruð með sömu aðgerð. Þá er átt við að tekið sé tillit til allra þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, umhverfis, efnahags og samfélags, til að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum.“

Einnig:
„Íslenskt samfélag tekur stöðugum breytingum. Til framtíðar þarf íslensk þjóð á orku að halda til uppbyggingar atvinnuvega og til að mæta fjölgun landsmanna. Mikilvægt er að sú orka komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum sem nýttir eru á sjálfbæran hátt. Þá er mikilvægt að tryggja að flutningur raforku geti átt sér stað á sem hagkvæmastan hátt en þó þannig að flutningsleiðir valdi eins litlu raski og hægt er innan skynsamlegra kostnaðarmarka.“

Þá eru gerðar sérstakar athugasemdir við 8. og 23. grein frumvarpsins þar sem annars vegar er fjallað um stjórn Hálendisþjóðgarðs og hins vegar orkunýtingu.

Umsögn VFÍ til Umhverfis- og samgöngunefndar.

Verkfræðingafélag Íslands vill taka þátt í stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku. Félagið er virkur umsagnaraðili um málefni er tengjast hagsmunum félagsmanna og samfélagsins í heild.

Allar umsagnir VFÍ er hægt að nálgast hér.