Heildarendurskoðun í stað bútasaums

Sjónarmið VFÍ kynnt fyrir þingmönnum.

9. maí 2018

Fulltrúar VFÍ voru boðaðir í annað sinn á fund Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Félagið hefur gagnrýnt fyrirliggjandi tillögur um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þær muni síst leiða til aukinnar skilvirkni og heildarendurskoðun laganna sé nauðsynleg í stað lagabreytinga sem minni á bútasaum.

Fulltrúar VFÍ, Páll Gíslason formaður VFÍ og Ásbjörn Blöndal framkvæmdastjóri Þróunarsviðs HS orku, mættu á fund Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Þeir tóku dæmi um óskilvirkni og ítrekuðu þörfina á heildarendurskoðun. Einnig að nauðsynlegt væri að gera strangari ramma um kæruferlið sem myndi  bæði auka gæði vinnunnar og tryggja að þeir sem hefðu eitthvað fram að færa varðandi einstakar framkvæmdir hefðu hvata til að koma sem fyrst inn í ferlið.  

Þingmenn spurðu hvort þeir teldu að mikið væri um ástæðulausar kærur til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þeir Páll og Ásbjörn svöruðu því til að rétt væri að gera ráð fyrir að í flestum tilvikum teldu kærendur sig hafa réttmætar ástæður til að kæra. En því væri neita að dæmi væru um annað og nefndu þeir lagfæringu Þingvallavegar og kæruefni Landverndar í tilviki Brúarvirkjunar sem dæmi. 

Páll lagði áherslu á að VFÍ telur jákvætt að gera kröfur um hæfi sérfræðinga sem vinna matsskýrslur, það auki gæði vinnunnar. Eftir sem áður væri ekki heppilegt að upp komi sú staða að sérfræðingar lendi á milli í deilum framkvæmdaaðila og Skipulagsstofnunar eða kærenda og Skipulagsstofnunar.