Höfum við hæfnina í græn orkuskipti?

Ný skýrsla ANE (Association of Nordic Engineers).

15. sep. 2022

Ný skýrsla ANE (Association of Nordic Engineers) leitast við að svara spurningunni um nauðsynlega hæfni tæknimenntaðra vegna grænna orkuskipta. Vitum við hver staðan er og hverjar þarfirnar eru? Stutta svarið er: Nei, við vitum það ekki.

Verkfræðingafélagið hefur átt aðild að ANE síðan 2018 og tók þátt í gerð skýrslunnar. Hingað til hefur lítil þekking verið til staðar um hvaða hæfni mun verða nauðsynleg núna og í framtíðinni til að hröð græn umskipti nái fram að ganga.

Hins vegar er nýja skýrslan Hæfni vegna sjálfbærrar framtíðar  fyrsta tilraunin til að draga upp mynd af þeirri hæfni sem tæknimenntaðir þurfa að búa yfir til að knýja áfram nauðsynlega þróun til grænni Norðurlanda í orkugeiranum.

Á Norðurlöndum hafa stjórnvöld metnaðarfullar áætlanir um að takast á við loftslagsbreytingar með grænum og stafrænum umskiptum samfélagsins. Mörg norræn fyrirtæki líta á þessa þróun sem tækifæri til að verða í fremstu röð á alþjóðavettvangi í þróun verðmætrar loftslags- og orkutækni. Mikilvægur þáttur í þeim umskiptum er hæfni og þekking verkfræðinga og tæknifræðinga. 

Í febrúar 2022 kom fram í skýrslu Confederation of Norwegian Enterprise (NHO) að fyrirtæki innan þeirra vébanda vanti yfir 10 þúsund verkfræðinga og tæknifræðinga með "græna og stafræna" hæfni fyrir norska orkugeirann. Þetta á líka við um Norðurlöndin, skortur á verkfræðingum og tæknifræðingum er viðvarandi.

Í mörg ár hafa norræn fyrirtæki, stéttarfélög, háskólar og stjórnvöld spáð verulegum skorti á tæknimenntuðu fólki fyrir græn og stafræn umskipti. - En það sem hefur vantað er nákvæm greining á hvaða kunnáttu og hæfni er um að ræða. 

Í skýrslu ANE: Hæfni til sjálfbærrar framtíðar er áhersla á að greina framtíðareftirspurn eftir færni á þeim sviðum orkuframleiðslu sem löndin hafa eða ætla sér að hafa sterka stöðu og möguleika. Fjallað er um Power-to-X, vindorku, rafhlöður, vetni, lífmassa, jarðhita og kolefnisnýtingu og -förgun.

Vinnuhópur ANE, sem VFÍ átti sæti í, hefur lagt fram tillögur um hvernig megi bregðast við og auka hæfni meðal tæknimenntaðra. Þar er skýrt tekið fram að til að minnka bilið milli eftirspurnar og framboðs verða norrænir stjórnmálamenn að fjárfesta í enn umfangsmeiri greiningu á framtíðareftirspurn hvað varðar hæfni á þessum sviðum og hvetja til öflugra samstarfs og þekkingarmiðlunar þvert á landamæri og á öllum sviðum samfélagsins. 

Skýrsla ANE: Competences for a Sustainable Future.

Tillögur - samantekt.

Hvað er ANE?

Verkfræðingafélag Íslands hefur átt aðild að ANE frá upphafi árs 2018. Samtökin eru samstarfsvettvangur félaga verkfræðinga og tæknifræðinga á Íslandi, í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og öðru af tveimur félögum í Noregi. Hlutverk ANE er að gæta hagsmuna norrænna verkfræðinga og tæknifræðinga bæði innan Norðurlandanna og í alþjóðlegu tilliti. Í dag eru um 500 þúsund félagsmenn í aðildarfélögum ANE.