Hvernig eflum við þekkingarsamfélag?

Grein eftir Svönu Helen Björnsdóttur formann VFÍ, sem birtist í Morgunblaðinu 30. mars 2023.

30. mar. 2023

svana_helenStjórn Verkfræðingafélags Íslands skilaði nýverið umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi til ársins 2025. Í umsögn Verkfræðingafélagsins er sjónum fyrst og fremst beint að þeim atriðum sem að félaginu snúa, þ.e.a.s. menntun í verkfræði, tæknifræði, öðrum tæknigreinum og raunvísindum.

Tillagan sem nú hefur verið sett fram er enn eitt dæmi um að ráðamenn horfi til þekkingar innan tæknigreina til að takast á við áskoranir sem við okkur blasa. Því miður er það svo að fyrirheit og stefna stjórnvalda nær ekki að kjarna vandans nú frekar en fyrri daginn. Við leysum ekki vandamálið nema með endurbótum á skólakerfinu í heild, með auknum fjárveitingum og ekki síst kjarki til að rýna og lagfæra það sem við vitum innst inni að má betur fara.

Afleiðingar af styttingu framhaldsskólans

Í umsögn Verkfræðingafélagsins er einmitt bent á að mörg þeirra vandamála sem rædd eru í þingsályktunartillögunni þarf að leysa á fyrri skólastigum. Hér má sérstaklega nefna hlutfall nemanda sem útskrifast úr vísinda- og tæknigreinum á Íslandi, sem hefur um árabil verið lágt í alþjóðlegu samhengi. Verkfræðingafélagið telur að nýlegar aðgerðir á borð við styttingu framhaldsskólans, aukna áherslu á opið val í námi á framhaldsskólastigi og sameiningu raungreina á grunnskólastigi séu líklegri til að lækka frekar en hækka hlutfall þeirra nemenda sem uppfylla inngangskröfur í verkfræði- og raunvísindadeildir háskólanna. Ef ekki kemur til bættur undirbúningur verður hlutfall nemenda á háskólastigi ekki aukið nema með því að lækka aðgangskröfur, sem seint verður talið líklegt til þess að auka gæði háskólanámsins.

Í ljósi þessa sem sagt er hér að ofan telur Verkfræðingafélagið afar mikilvægt að gerð verði stjórnsýsluúttekt á áhrifum styttingar framhaldsskólans.

Huga þarf að grunnstoðum menntunar

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um stöðu drengja í skólakerfinu. Brottfall þeirra úr  framhaldsskóla er alvarlegt vandamál sem þarf að bregðast við. Að meðaltali hafa 42% karlmanna á aldrinum 25-34 ára lokið háskólanámi í OECD löndum. Á Íslandi er þetta hlutfall aðeins 34%. 

Ef litið er til háskólastigsins þá er val á námi mikilvæg ákvörðun í lífi einstaklinga og stýrist af mörgum þáttum. Tillaga ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar gefur í skyn að með breytingum á reiknilíkani háskólanna megi hafa áhrif á þetta val, m.a. „til að bæta tengingu milli atvinnulífs og háskólanna um færni á vinnumarkaði.“ Það er mat Verkfræðingafélagsins að aukin áhersla á tækni- og raungreinar á grunn- og framhaldsskólastigi og bætt upplýsingagjöf til ungs fólks um tækifæri á vinnumarkaði sé betur til þess fallið að auka aðsókn hæfra nemenda í þær greinar sem ráðherra telur mikilvægar og draga úr hættu á auknu atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra. Það er varasamt að ætla sér að mæta þörf fyrir nýsköpun og vöxt í framtíðinni með því að móta háskólanám fyrst og fremst eftir þörfum atvinnulífs í nútíðinni. Vænlegra er að huga að vel að grunnstoðum menntunar og því að útbúa jarðveg þar sem nýir sprotar geta skotið rótum og vaxið. 

Fjármagnið vantar

Verkfræðingafélagið bendir á að ekki er samhljómur í áherslum þingsályktunartillögunnar og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027, þar sem reiknað er með að framlög til háskólastigsins (fjárfestingarliður undanskilinn) hækki um 1,5% til 2027 og haldi þar af leiðandi ekki í við mannfjöldaspá sem gerir ráð fyrir um 6% fjölgun íbúa á sama tímabili. Gangi umræddar áætlanir um fjölgun háskólanema og breytingar á áherslum í kennslu hins vegar eftir án aukinna fjárveitinga mun staða háskóla á Íslandi versna enn frekar í alþjóðlegum samanburði.

Á sama tíma og háleit markmið eru sett fram um að fjölga háskólanemum hér á landi á Ísland engan háskóla í efstu 300 sætunum á lista Times Higher Education sem metur gæði háskóla út frá fjölda mælikvarða (þar á meðal eru mælikvarðar sem beint tengjast fjármögnun á hvern nemanda). Háskóli Íslands var á meðal 300 efstu háskóla á þessum lista á árunum 2012-2018 og kleif hæst í sæti 201-250 á árunum 2016-2018. Frá 2018 hefur staða hans hins vegar fallið jafnt og þétt og situr skólinn nú í sæti 501-600. Háskólum hefur ekki fjölgað á landinu á þessu tímabili og því ekki hægt að skýra núverandi stöðu með því að íslenskir háskólar séu veikari vegna fjölda háskóla á landinu. Nærtækara er að tengja þessa þróun við viðvarandi undirfjármögnun háskólastigins undanfarin ár.

Verkfræðingafélagið telur mikilvægt að ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar útskýri hvernig metnaðarfullar áætlanir um aukin gæði háskólamenntunar, m.a. í verkfræði, raunvísindum og tæknigreinum, rími við skort á auknum fjárheimildum til háskólasviðsins í fjármálaáætlun næstu ára. Félagið telur afar mikilvægt að ráðherra greini frá því hvaða stuðningsaðgerðir á fyrri skólastigum séu fyrirhugaðar innan mennta- og barnamálaráðuneytis til að gera fyrirhugaða fjölgun háskólanema í umræddum greinum mögulega.

Verkfræðingafélagið sér engin haldbær rök fyrir því að endurskoðun reiknilíkans háskólanna muni bæta gæði háskólanáms á Íslandi án þess að samhliða komi til verulegt viðbótarfjármagn til háskólastigsins, né að slík endurskoðun geti skilað auknum fjölda nemenda í umræddum greinum án gagngerrar endurskoðunar á kennslu raungreina í grunn- og framhaldsskólum, auk greininga á undirliggjandi orsökum kynjahalla á háskólastigi á undanförnum árum og viðeigandi mótvægisaðgerðum.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Ljósmyndin var tekin í heimsókn Verkfræðingafélagsins í Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Félagið er styrktaraðili Vísindasmiðjunnar.