Hvers virði er tæknimenntun?

Skilning á mikilvægi fagþekkingar skortir.

22. ágú. 2024

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2024.

Þegar þetta er skrifað eru kjaraviðræður að hefjast að nýju eftir sumarleyfi. Meðan samninganefndarfólk safnaði kröftum var umræða um mikilvægi þess að byggja upp innviði, auka orkuvinnslu og hækka hlutfall grænnar orku áberandi í fjölmiðlum. Allir virðast sammála um að nú þurfi að taka til hendi. Sumir taka svo djúpt í árinni að segja að neyðarástand blasi við. Sömu einstaklingar sýna því miður lítinn skilning á því að vinda þurfi ofan af þeirri kjararýrnun sem verkfræðingar og tæknifræðingar hafa þurft að sæta um langt árabil.

Nú er það svo að verkfræðingar og tæknifræðingar verða í lykilhlutverkum í þeim risaverkefnum sem nefnd voru hér að framan. Hvatinn og stuðningur til að mennta sig í þessum greinum endurspeglast því miður ekki í skilningi á að nú þurfi að stíga ákveðin skref til að bæta kjör þessara hópa. Við búum við þá varhugaverðu staðreynd að launamunur háskólamenntaðra og ófaglærðra er einn sá minnsti í Evrópu. Það blasir við öllum þeim sem vilja sjá að fjárhagslegur hvati til að leggja á sig erfitt nám með tilheyrandi skuldsetningu er orðinn sorglega lítill og samfélagið líður fyrir það.

Orkuskipti í höndum hverra?

Orkuskiptin verða ekki að veruleika nema með öflugu tæknimenntuðu fólki og fagþekkingu. Fyrri orkuskiptum í landinu var komið á með vel menntuðum verkfræðingum og tæknifræðingum í fararbroddi, þar sem árvekni, metnaður, elja og gott hugvit var aðaldrifkrafturinn. Hver mun standa vaktina eftir nokkur ár? Skortur á tæknimenntuðu fólki á vinnumarkaðnum er nú þegar greinilegur og nýliðun á sviði tæknigreina annar hvorki eftirspurn nútíðar né framtíðar.

Skilning á mikilvægi fagþekkingar skortir

Varnarbarátta Verkfræðingafélagsins snýst ekki einungis um beinharða peninga og launahækkanir. Það er grafalvarlegt að innan stjórnkerfisins og í hinu pólitíska umhverfi virðist almennt skorta skilning á mikilvægi djúprar fagþekkingar. Dæmi um þetta eru mannaráðningar hins opinbera og hálfopinberra fyrirtækja þar sem lögfræðingar og viðskiptafræðingar, jafnvel fólk með menntun sem er eins langt frá tækniþekkingu og hugsast getur, er ráðið í stjórnunarstöður þar sem öllum ætti að vera ljóst að tækniþekking er nauðsynleg. Þessir einstaklingar eiga síðan að hafa yfirumsjón með útboðum í mjög stórum verkefnum en hafa lítinn sem engan skilning á viðfangsefninu sem um ræðir. Aðaláherslan er að þvinga niður verð í útboðum sem er jafnvel talið merki um árangur í starfi. Í fyrsta lagi stóreykur það hættuna á fúski, eins og mörg dæmi sanna og heldur niðri kjörum þeirra sem hafa raunverulega hæfni til að vinna slík verkefni.

Samheldni og stéttarvitund

Kjör verkfræðinga og tæknifræðinga verða ekki bætt nema stéttin standi saman í að virða mikilvægi fagþekkingar og tæknikunnáttu, að verkkaupar virði þekkingu ráðgjafa og sérfræðinga að verðleikum og hafni þeirri stefnu að ákvarðanir eigi einkum að byggja á því að fá sem lægst verð.

Hvert sem litið er koma verkfræðingar og tæknifræðingar að því að skapa verðmæti og meiri velmegun. Því er mikilvægt að virða tæknimenntun að verðleikum og opna augun fyrir því hversu miklu máli hún skiptir í velferð á öllum sviðum samfélagsins. Grunnatriði í þessu öllu er að styðja og efla menntun á sviði raungreina í skólakerfinu og umbuna þeim vel og af sanngirni sem leggja á sig langt og strangt nám og öðlast þar með þekkingu sem mikil eftirspurn er eftir og ekki síst – skapar raunveruleg verðmæti.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.


Myndin sem fylgir greininni hér á vef VFÍ er tekin við afhendingu Teningsins í aprílmánuði sl. Verkfræðingar og tæknifræðingar eru í lykilhlutverkum í varnaraðgerðum í tengslum við eldsumbrotin á Reykjanesi.- Skýrt dæmi um mikilvægi tæknimenntunar í okkar þjóðfélagi.