Svana Helen kosin í aðalstjórn FEANI
Svana Helen Björnsdóttir tekur sæti í aðalstjórn FEANI.
Svana Helen Björnsdóttir formaður Verkfræðingafélags Íslands, var nýverið kosin í aðalstjórn FEANI, Evrópusamtaka verkfræðinga og tæknifræðinga. Kosningin fór fram á ársfundi FEANI sem haldinn var í Reykjavík í byrjun október. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland á fulltrúa í aðalstjórninni.
Innan vébanda FEANI eru félög verkfræðinga og tæknifræðinga í 33 löndum sem samtals hafa um 3,5 milljónir félagsmanna. FEANI vinnur að því að styrkja stöðu, hlutverk og ábyrgð þessara starfsstétta í samfélaginu.
Verkfræðingafélag Íslands hefur átt aðild að FEANI síðan 1965. Starfsheitin verkfræðingur og tæknifræðingur eru lögvernduð starfsheiti á Íslandi. Þátttaka í starfi FEANI hefur meðal annars reynst vel í því að standa vörð um starfsheitin og gæði menntunar í tæknifræði og verkfræði. FEANI starfrækir gagnagrunn með upplýsingum um þær menntastofnanir sem bjóða viðurkennt nám í verkfræði og tæknifræði. Þetta hefur reynst afar mikilvægt við mat á starfsheitisumsóknum, en ekki síður við að leiðbeina íslenskum nemendum sem stefna á nám erlendis í tæknifræði eða verkfræði.
FEANI var stofnað árið 1951, nokkrum árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, af hópi franskra og þýskra verkfræðinga sem höfðu trú á að með tækniþróun og sameiginlegu starfssviði þeirra væri mögulegt að skapa tengsl milli fyrrum andstæðinga. Markmiðið var, og er því enn, að stuðla að velmegun og friði innan Evrópu.
FEANI (Fédération Européenne d´Associations Nationales d´Ingénieurs/European Federation of National Engineering Associations).
- Næsta færsla
- Fyrri færsla