Leið fundin fyrir umhverfisráðherra
Grein eftir Pál Gíslason formann VFÍ.
Ekki er deilt um mikilvægi umhverfismats framkvæmda í okkar lýðræðisþjóðfélagi. Skrifræði og ósamvirkni stofnana hins opinbera sem koma þurfa að ákvörðunum eru þó þyrnir í augum. Sú staðreynd að ferli umhverfismats og skipulagsákvarðana skuli vera aðskilið hér á landi leiðir oft á tíðum til óþarfs tvíverknaðar. Miklar tafir eru á afgreiðslu mála og málshraði fylgir ekki lögbundnum tímafrestum hjá yfirhlöðnum stofnunum. Hið miðstýrða kerfi er í rauninni stíflað. Málahalinn hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála lengist stöðugt. Á öllum stigum hins flókna ferlis umhverfismatsins í dag er unnt að kæra stjórnvaldsákvarðanir og úrskurði. Og því miður er alltof algengt að kærur séu settar fram þegar komið er að veitingu framkvæmdaleyfa.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson,umhverfis- og auðlindaráðherra segir í Mbl. 5.5. 2018 að mikilvægt sé að „finna leiðir til að auka þátttöku snemma í ferli ákvarðanatöku til að byggja undir aukna sátt um áætlanir og framkvæmdir, og fækka deilumálum, þar með talið kærum.“ Hann vill einnig skoða það að umhverfisverndarsamtök verði þátttakendur í opinberum starfshópum og lögbundnum nefndum. Þetta er auðvitað gott og blessað, enda mótast umhverfisáhrif framkvæmda að verulegu leyti á fyrstu stigum undirbúnings.
Áhrifum fylgi ábyrgð
Meginregla í góðum stjórnarháttum er að auknum áhrifum og þátttöku í ákvörðunum fylgi meiri ábyrgð. Sé vikið frá henni blasir sú hætta við að ýtt sé enn frekar undir þá tilhneigingu að umhverfissamtök víki sér undan þátttöku á fyrstu stigum undirbúnings til þess að geta komið fram með kærur og stöðvunarkröfur þegar brýn innviða- og samfélagsverkefni eru komin á framkvæmdastig. Á Íslandi er málum þannig háttað að ríkið ber kostnað af málarekstri í umhverfismálum en framkvæmdaaðilar af töfum og stöðvunum. Engin áhersla virðist þó lögð á að almenningur sé upplýstur um þann kostnað.
Brýnar umbætur á stórhættulegum Þingvallavegi hafa nýverið verið stöðvaðar með kæru sem virðist tilhæfulítil og byggjist á atriðum sem auðvelt hefði verið að rökstyðja framar í ferlinu ef eftir því hefði verið kallað eða þá að gerð er grein fyrir þeim í umhverfisskýrslu um verkefnið, sem finna má á vef Vegagerðarinanr. Framkvæmdir við rennslisvirkjun hafa nýverið verið stöðvaðar með kæru upp á tíu liði sem um hafði verið fjallað á fullnægjandi hátt í umhverfismati . Aðeins einn af kæruliðinum gæti verið álitamál. Í Hafnarfirði hefur línutilfærsla verið stöðvuð með kæru þar sem kostnaðaráhrif gætu hlaupið á 6 milljörðum úr vasa skattgreiðenda. Ekki nema von að Jón Gunnarsson, varaformaður Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, fórni höndum og segi: „Hér hefur ekkert verið hægt að gera í nokkur ár vegna endalausra kæruleiða“.
Virkari þátttaka
Verkfræðingafélag Íslands hefur nýverið lagt til við Alþingi að aðild umhverfisverndar- og útivistarsamtaka að kærumálum verði bundin því skilyrði að þau hafi látið sig viðkomandi mál varða á fyrstu stigum. Tekið verði upp hóflegt kærugjald þegar stjórnvaldsákvarðanir eru kærðar og kærendum gert að leggja fram hóflegt tryggingargjald vegna stöðvunarkröfu á framkvæmdir. Málskostnaðargjald verði lagt á vegna tilefnislausra kæra. Loks verði heimildir til flýtimeðferðar mála sem kærð eru auknar í tilfellum þar sem brýnir hagsmunir kærenda jafnt sem kærða eru taldir liggja undir. Með innleiðingu ofangreindra breytinga telur VFí að náist fram virkari þáttaka framarlega í ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, aukin ábyrgð í undirbúningi stórra og umdeildra verkefna og vandaðri málatilbúnaður í kærumálum. Á öðrum sviðum stjórnkerfisins er hliðstæð gjaldtaka þekkt og viðurkennd. Rétt er að taka fram að tillögur VFÍ rúmast vel innan þess ramma sem Árósasamkomulagið og Evrópureglur setja.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla