Lestu tölvupóst í sumarfríinu?

Dönsk könnun: Helmingur vinnur í sumarfríinu.

24. jún. 2021

Margir kannast við hversu erfitt það er að „kúpla sig frá" vinnunni í fríum og sleppa því að „kíkja bara aðeins" á tölvupóstinn. Danska verkfræðingafélagið (IDA) lét gera könnun á hversu margir svara vinnutengdum tölvupóstum, smáskilaboðum og símtölum í sumarfríinu. Niðurstaðan er sláandi en kemur kannski ekki á óvart, helmingur svarenda vinnur í fríinu. - Og þriðjungur þeirra vegna kröfu frá vinnuveitanda. Kannanir VFÍ sýna sömu tilhneigingu varðandi frítíma félagsmanna.

Könnun VFÍ: Meirihluti vinnur í frítímanum

Í könnun VFÍ sem gerð var í desember 2020 var spurt almennt um frítíma. Þ.e. hvort gert væri ráð fyrir að svarendur væru til staðar (t.d. í gegnum tölvupóst eða farsíma). Rúmlega 60% eru til reiðu gagnvart vinnuveitanda og samstarfsmönnum og rúmlega 50% gagnvart viðskiptavinum og öðrum utan vinnustaðarins.

Aðeins 18% segja að vinnustaðurinn hafi mótað stefnu varðandi það að starfsmenn séu til reiðu utan hefðbundins vinnutíma. 

Munum við læra af heimsfaraldri?

COVID-19 faraldurinn og fjarvinna hefur beint athyglinni að sveigjanleika og jafnvægisins sem þarf að vera milli vinnu og einkalífs. Almennt virðist erfitt að ná þessu jafnvægi á vinnumarkaðnum. Það er eins og jafnvægið hafi raskast enn frekar í fjarvinnu vegna heimsfaraldursins og því erfiðara að leggja frá sér símann í sumarfríinu. Ekki síst núna á sumarfríið að vera kærkomin andleg og líkamleg hvíld. Það hlýtur að vera markmiðið með því að taka sumarfrí, annars er hætta á að streita og kulnun taki yfir.

Að fara fram á og jafnvel setja sem skilyrði að starfsmaður sinni vinnutengdum erindum í fríinu sínu er ósanngjarnt og ekki skynsamlegt.  Sveigjanleiki í starfi gerir kröfur bæði til vinnuveitanda og launþega. Enginn getur verið til staðar allan sólarhringinn. Þess vegna er mikilvægt að setja leikreglur um hvernig málum skuli háttað. Allir eiga rétt á fríi og að hlaða batteríin með góðri samvisku. 

Án efa er á mörgum vinnustöðum hægt að bæta starfmannastefnu og menningu hvað þetta varðar. Nú þegar margir snúa til baka á vinnustaðinn eftir fjarvinnu, jafnvel í lengri tíma, gefst kærkomið tækifæri til að ræða þessi mál og ná fram úrbótum. 

Á vef Virk eru gagnlegar upplýsingar um sumarfrí og tölvupóst. 

Njótið sumarfrísins (frá tölvupóstinum) með góðri samvisku!